Viðskipti innlent

Reiknar með því að fá 990 króna gjald til baka

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
„Ég vil fá endurgreitt og á von á að þeir muni bjóða mér það,“ segir Herdís Herbertsdóttir. Hún fór nýverið með 1.062 krónur í smámynt í sjálfvirka talningarvél Arion banka í Kringlunni. Bankinn tók þó 990 krónur í gjald fyrir talninguna, svo hún fékk einungis 72 krónur.

Í samtali við Vísi segist Herdís vita til þess að starfsmenn Arion banka hafi hringt heim til sín í dag og reynt að ná sambandi við sig. Þó hafi hún gefið upp farsímanúmer sitt þegar hún bar fram kvörtun vegna gjaldtökunnar. Hún segist vilja fá gjaldið endurgreitt.

„Ég á von á því að þeir ætli að bjóða mér það. Mér finnst líklegt að það hafi verið erindið, en ég mun allavega óska eftir því.“

Hún segist hafa kvartað þegar hún varð vör við hve hátt gjaldið var.

„Ég sagði að mér þætti þetta algerlega óásættanlegt og þeir sögðu bara því miður. Starfsfólkið var þó kurteist og fínt. Það var ekki vandamálið. Það var bara þessi gjaldskrá sem var svona arfavitlaus og alveg ótrúlegt að hún hafi verið látin viðgangast.“

Bára Mjöll Þórðardóttir.Mynd/Arion Banki
Arion-banki felldi niður gjaldið

Bára Mjöll Þórðardóttir hjá samskiptasviði Arion-banka segir í samtali við Mbl.is, sem fyrst greindi frá málinu í morgun, að um yfirsjón hafi verið að ræða af hálfu bankans. Hann hafi brugðist við um leið og það hafi komið í ljós.

„Við teljum rétt að endurskoða þetta gjald og verður ekki tekið gjald í talningarvélum bankans næstu daga meðan ákvörðun um upphæð gjalds liggur ekki fyrir,“ segir Bára.

Herdís er ánægð með að bankinn hafi fellt niður gjaldið.

„Mér finnst þeir menn að meiri að breyta allavega gjaldskránni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því en það þarf greinilega ýmislegt til,“ segir Herdís.

„Ég sagðist strax ætla með þetta lengra og þetta er það sem við þurfum að gera meira, við Íslendingar. Við eigum ekki bara að kyngja öllu þegjandi. Það bara gengur ekki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×