Innlent

Reikna með níu daga réttarhöldum yfir Landsbankamönnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurjón Þ. Árnason ásamt Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni sínum.
Sigurjón Þ. Árnason ásamt Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni sínum. Vísir/GVA
Aðalmeðferð í einu stærsta máli sem Sérstakur saksóknari hefur haft til rannsóknar í kjölfar efnahagshrunsins hefst í dag. Stjórnendur og starfsmenn Landsbankans er sakaðir um að hafa handstýrt verði á hlutabréfum í aðdraganda hrunsins. Gert er ráð fyrir því að aðalmeðferðin standi til 13. október eða í níu daga.

Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, og þremur starfsmönnum bankans, er gefið að sök að hafa blekkt almenning með því að handstýra verði hlutabréfa í bankanum í aðdraganda hrunsins.

„Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti," segir í ákærunni.

Í raun er verið að taka fyrir eitt mál af þremur í ákærunni. Þegar hefur verið réttað í svokölluðu ÍMON-máli þar sem Sigurjón og Elín Sigfúsdóttir voru sýknuð af ákæru um umboðssvik. Steinþór Gunnarsson, sem gegndi stöðu forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans, var hins vegar dæmdur í níu mánaða fangelsi þar af hálft ár á skilorði.

Þriðja og síðasta málið er áþekkt ÍMON-málinu og snýst um markaðsmisnotkun.Það snýst um 3,8 milljarða kaup félagsins Azalea Resources Ltd., sem er skráð á Bresku-Jómfrúreyjum, á bréfum í bankanum 3. október 2008. Kaupin áttu að vera fjármögnuð með láni frá bankanum. Azalea Resources Ltd. var í eigu finnsks viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar, Ari Salmivuori.


Tengdar fréttir

Áfrýjar í Imon-málinu

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, sem í dag var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af hálft ár skilorðsbundið, ætlar að áfrýja dómnum.

Imon-málið: Sigurjón og Elín sýknuð

Dómsuppsaga í Imon-málinu var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur en Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir voru bæði sýknuð. Steinþór Gunnarsson var aftur á móti dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af hálft ár á skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×