Innlent

Reiður rútubílstjóri á Laugaveginum: „I don't give a fuck“

Anton Egilsson skrifar
Rútubílstjórinn hafði lagt rútunni út á miðri götu.
Rútubílstjórinn hafði lagt rútunni út á miðri götu. Skjáskot
Myndband af orðaskiptum rútubílstjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Extreme Iceland og gangandi vegfaranda á Laugavegi hefur farið eins og eldur í sinu um netheima í dag.

Í myndbandinu má sjá rútubílstjórann bregðast ókvæða við tilmælum vegfaranda um að færa rútubifreið fyrirtækisins en henni hafði hann lagt út á miðri götu og þar með lokað fyrir umferð. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa 50 þúsund manns horft á myndskeiðið. 

Atvikið umrædda átti sér stað á gatnamótum Laugavegs og Smiðjustígs en þar var starfsmaður Extreme Iceland staddur til að sækja viðskiptavini. Ákvað vegfarandi sem þar var staddur að benda honum vinsamlega á að rútubifreið sem hann var á væri lagt ólöglega. Nóg af bílastæðum væru nálægt.

Tók rútubílstjórinn illa í þetta og þegar vegfarandinn beindi þeim orðum til hans að það væri hans starf að leggja rétt svaraði hann á móti: „I don‘t give fuck“.

Munu ræða við starfsmanninn

Í samtali við Vísi segist Kári Björnsson, framkvæmdarstjóri Extreme Iceland, harma það að rútu á þeirra vegum hafi verið lagt ólöglega.

„Við viljum það auðvitað ekki og reynum að koma í veg fyrir það eins og hægt er en það er ekki alltaf hægt alls staðar.“

Aðspurður um skoðun hans á viðbrögðum starfsmannsins við tilmælum vegfarandans segir Kári að það hafi ekki verið rétt af hans hálfu að tala líkt og hann gerði.     

 „Aðal mistökin hans þarna eru að halda ekki ró sinni.“

Farið verði yfir atvikið í fyrirtækinu á morgun.

„Við munum ræða við starfsmanninn og skoða reglurnar okkar og reyna að koma í veg fyrir svona í framtíðinni,“ segir Kári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×