Enski boltinn

Reiður Klopp: Hefði verið slæmur leikur þrátt fyrir jafntefli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var reiður eftir tap hans manna gegn botnliði Swansea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Liverpool tapaði leiknum 1-0 eftir mark frá Alfie Mawson seint í fyrri hálfleik.

„Ég er pirraður og reiður því þetta var ekki góður leikur. Við töpuðum leiknum í fyrri hálfleik. Við gerðum ekki það sem við vildum gera,“ sagði Klopp eftir leikinn.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Þeir voru fljúgandi í fyrri hálfleik en ekki við. við náðum að pressa undir lokin en ekki nóg til þess að skora. Jafnvel þó við hefðum náð að taka stig þá væri þetta samt slæmur leikur.“

Liverpool hefði getað jafnað Chelsea að stigum í þriðja sæti deildarinnar með sigri í kvöld.

„Við köstuðum þessu ekki frá okkur. Swansea berst fyrir lífi sínu í deildinni og við vorum ekki nógu hreyfanlegir sóknarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×