Erlent

Regnbogi myndaðist þegar lögregla tvístraði gay pride göngu í Tyrklandi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lögregla sprautaði vatni úr háþrýstidælum á hópinn sem fagnaði gay pride.
Lögregla sprautaði vatni úr háþrýstidælum á hópinn sem fagnaði gay pride. Vísir/EPA
Þrátt fyrir að árleg gay pride ganga í Istanbúl, höfuðborg Tyrklands, hafi farið fram með rólegum hætti síðastliðin þrettán ár þótti lögreglu í borginni ástæða til þess að stöðva þátttakendur göngunnar með piparúða og með því að sprauta vatni á hóp fólks í göngunni. Vatnið myndaði regnboga yfir göngunni sem margir telja táknrænan.

Yfirvöld í Istanbúl sögðust ekki hafa leyft gönguna af trúarlegum ástæðum en nú stendur Ramadan yfir sem er talið heilagt tímabil hjá múslimum. Þrátt fyrir þetta ákváðu skipuleggjendur að halda gönguna. Í fyrra var gangan farin á sama tímabili og þá var ekkert gert til þess að stöðva hana.





Aktivistar í Tyrklandi hafa haldið því fram að raunveruleg ástæða fyrir aðgerðum lögreglu í göngunni sem farin nú á sunnudag sé í raun að þagga niður í LGBT hreyfingunni. Hreyfingin standi með öðrum minnihlutahópum og sé orðin ansi sterk í Tyrklandi. Því telji forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, að nauðsynlegt sé að tryggja völd sín og þar að auki höfða til hins íhaldssamari hluta kjósenda.

Mynd af regnboga sem myndaðist yfir göngunni eftir að lögregla hafði sprautað vatni úr háþrýstidælum á hópinn hefur vakið mikla athygli í Tyrklandi. Regnbogafáninn er merki LGBT hreyfingarinnar og því þótti mörgum myndin ansi táknræn en samkvæmt vef Independent er þó enn sá möguleiki fyrir hendi að regnboganum hafi verið bætt inn á myndina í myndvinnsluforriti. Í þeirri frétt kemur þó fram að ein og hálf milljón manna hafi séð myndina og að henni hafi verið dreift víða í Tyrklandi.

Gangan var líka farin þegar Ramadan stóð yfir í fyrra en þá kom ekki til neinna átaka.Vísir/EPA
Gangan hefur fengið að fara fram með friðsælum hætti síðastliðin ár.Vísir/EPA
Regnboginn er tákn LBGT hreyfingarinnar.Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×