Innlent

Refur sást í Garðabæ

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Þessi refur sást í garði við Ásbúð í Garðabæ. Refir leita eftir æti og eru helst á ferð um nætur.
Þessi refur sást í garði við Ásbúð í Garðabæ. Refir leita eftir æti og eru helst á ferð um nætur. Mynd/Sverrir eyjólfsson
Refur sást í garði í Ásbúð í Garðabæ í vikunni. Hrönn Kjærnested kennari varð vör við refinn í garði sínum og segist halda að hann hafi verið slasaður.

„Þetta var hvítur refur. Hann hreyfði sig ekki neitt og mér sýndist hann vera eitthvað laskaður. Það kom hingað meindýraeyðir, sem staðfesti að þetta væri refur og vildi skjóta hann. Hann spurði mig hvort ég ætti byssu, það átti ég að sjálfsögðu ekki,“ segir Hrönn. Meindýraeyðirinn sneri aftur með byssu og skaut refinn. Hann reyndist fótbrotinn, líklega eftir ákeyrslu.

Afar óvenjulegt er að refir séu að þvælast svo nærri mannabyggð þótt Guðmundur Björnsson, meindýraeyðir Reykjavíkurborgar, segi þá færa sig nær og nær þéttbýli í leit að æti. „Þeir eru að nálgast. Það er eins og hefur gerst víða erlendis, þar flækjast dýrin inn í borgirnar. Þeir eru komnir ansi nálægt okkur, koma ofan úr fjöllunum og eru helst á ferð um nætur,“ segir Guðmundur og telur borgarbúa helst verða vara við refi nálægt Úlfarsfelli þar sem hafa verið refagreni. „Þeir hafa sést fara yfir Vesturlandsveginn á leið niður í fjöru. Ég man líka eftir ref sem fannst á Stórhöfða. Þetta eru dýr sem eru að reyna að bjarga sér og lífið er harðara fyrir þau á veturna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×