Erlent

Refsiaðgerðir verði hertar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn rússneskum og úkraínskum ráðamönnum verða hertar og ætlar Evrópusambandið að veita Úkraínu lán um einn milljarð evra, eða að jafnvirði 156 milljörðum króna. Einnig veittu bandarísk stjórnvöld Úkraínu lán upp á einn milljarð Bandaríkjadala, sem jafngildir 112 milljörðum króna.

Málefni Úkraínu voru rædd á fundi utanríkismálaráðherra Evrópusambandsins í gær, en mikil spenna hefur verið í austurhluta landsins síðustu daga.

Þegar eru í gildi refsiaðgerðir gegn þrjátíu og þremur háttsettum ráðamönnum í Rússlandi og fyrrum embættismönnum í Úkraínu, þar á meðal Viktori Janókóvitsj, fyrrum forseta Úkraínu. Fjölgun á þessum lista er í burðarliðnum, en frekari útlistun liggur þó enn ekki fyrir.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræddu ástandið í Úkraínu símleiðis. Pútín hafnaði ásökunum um að Rússar stæðu fyrir mótmælunum og yfirtöku bygginga í austurhluta Úkraínu.

Mótmælendurnir, sem taldir eru vera hliðhollir Rússum, hafa tekið yfir átta stjórnarbyggingar að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×