Enski boltinn

Redknapp vill sjá sérstakar höfuðhögga-skiptingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Queens Park Rangers, leggur til að enska úrvalsdeildin taki það upp að leyfa tímabundnar skiptingar verði leikmenn liðanna fyrir höfuðmeiðslum.

Redknapp talaði um þetta eftir tapið á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni um helgina en hann þurfti þá að taka Sandro af velli eftir aðeins ellefu mínútur í framhaldi af því að Brasilíumaðurinn fékk höfuðhögg.

Sandro hefði getað komið aftur inn á völlinn seinna í hálfleiknum en það var of seint. „Þú getur ekki beðið í tíu eða fimmtán mínútur með tíu menn á móti ellefu. Það er bara ekki hægt og það þýðir að læknar liðsins fá ekki nægan tíma til að skoða leikmanninn," sagði Harry Redknapp.

„Það væri ekki versta hugmynd í heimi að skoða möguleikann á tímabundnum skiptingum á meðan læknarnir fá sinn tíma til að skoða leikmanninn. Læknarnir verða að fá sinn tíma því þeir þurfa að fara að öllu með gát. Þeir gætu nefnilega lega verið í miklum vandræðum ef eitthvað færi úrskeiðis," sagði Redknapp.

„Það var ekki mikið að Sandro í hálfleik. Hann var í góðum gír í klefanum en auðvitað þurftu læknarnir að vera fullvissir um að hann væri í lagi," sagði Redknapp.

Sandro fer hér af velli í upphafi leiks.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×