Fótbolti

Real Madrid fær ekki hjálp frá Ronaldo á móti Barca í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo missir af bikarúrslitaleiknum á Spáni sem fram fer í kvöld en Real Madrid mætir þá erkifjendum sínum í Barcelona á Mestalla-leikvanginum í Valencia.

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, staðfesti það í gær að Cristiano Ronaldo væri tognaður aftan í læri og yrði því ekki með í leiknum.

„Við viljum ekki taka neina áhættu með hann því það eru aðrir mikilvægir leikir á næstunni," sagði Carlo Ancelotti en Real Madrid mætir meðal annars Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Stöð 2 Sport mun sýna leikinn beint en El Clasico leikirnir valda sjaldan vonbrigðum enda ekki í tísku hjá þessum liðum að leggjast í vörn. Leikurinn hefst klukkan 19.30 að íslensum tíma.

Cristiano Ronaldo skoraði 3 mörk og gaf 2 stoðsendingar í sex bikarleikjum sínum á tímabilinu en Real Madrid hefur ekki fengið mark á sig í keppninni í átta leikjum. Markatalan er 13-0, Real í hag.

Barcelona hefur unnið spænska bikarinn 26 sinnum eða átta sinnum ofar en Real Madrid. Barcelona vann hann síðast 2012 en Real Madrid vann bikarinn 2011 eftir að hafa unnið úrslitaleik á móti Barcelona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×