Íslenski boltinn

Rauschenberg útilokar ekki að koma til Íslands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Rauschenberg í baráttu við Atla Viðar Björnsson.
Martin Rauschenberg í baráttu við Atla Viðar Björnsson. vísir/daníel
Martin Rauschenberg, danski miðvörðurinn sem spilað hefur með Stjörnunni í Pepsi-deild karla í fótbolta undanfarin tvö ár, stefnir á að spila í Noregi eða Svíþjóð á næstu leiktíð.

Hann var á reynslu hjá Lilleström en semur þó ekki við liðið sem Rúnar Kristinsson þjálfar nú.

„Mér gekk vel hjá Lilleström og þeir voru ánægðir með mig. En síðan ákvað þjálfarinn að hætta og félagið er líka í fjárhagsvandræðum. Umboðsmaður minn er byrjaður að leita að nýju liði,“ segir Rauschenberg við Bold.dk.

Miðvörðurinn telur ólíklegt að lið í heimalandinu semji við hann og því komi hin Norðurlöndin frekar til greina. Hann útilokar ekki að koma aftur til Stjörnunnar eða Íslands, en það er ekki fyrsti kostur.

„Ég loka samt engum dyrum. Ég get fengið góðan samning og fínan peninga á Íslandi þar sem mér hefur gengið svo vel síðustu ár. Ég er að leita á markaðnum en ef ég finn ekkert gæti ég farið aftur til Íslands,“ segir Martin Rauschenberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×