Skoðun

Raunveruleg framkvæmdaáætlun, óskalisti eða plagg til einskis ?

Bergur Þorri Benjamínsson skrifar
Á alþjóðadegi fatlaðs fólks 2016 liggja fyrir drög að nýrri Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir tímabilið 2017 – 2021, sem er langt og ítarlegt plagg. Þegar rennt er yfir drögin með gleraugum hreyfihamlaðra einstaklinga (sem og allra fatlaðra) koma upp fjölmargar spurningar og því miður vissar efasemdir. Sérstaklega þegar tekið er mið af raunniðurstöðu fyrri framkvæmdaáætlunar sem er búin að vera við lýði frá 2012 og því miður er fjölmargt þar sem alls ekki hefur raungerst, þó vissulega hafi einstaka atriði náð fram að ganga.

Hér eru bara tvö dæmi tiltekin sem ekki hafa raungerst. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er enn þá á ís og því enn skilgreind sem tilraunaverkefni. Afar brýnt er að NPA verði lögfest á næstunni, enda hafa flestir stjórnmálaflokkar sett það á stefnuskrá sína fyrir nýafstaðnar kosningar. Kveðið er á um margs konar réttindi fatlaðra og þ.m.t. NPA í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þrátt fyrir að samningurinn hafi verið undirritaður og núna fullgiltur þá hafa allt of fá réttindi sem þar eru tiltekin raungerst. Því er gífurlega mikilvægt að samningurinn verði lögfestur á fyrstu vikum nýs löggjafarþings.

Langt í land

Takmörkun á aðgengi allra almenningssamgangna. Þar er langt í land en eðlileg og sanngjörn krafa hreyfihamlaðra er að t.d. almenningsvagnar sem ganga út um landið allt verði að vera aðgengilegir öllum, en ekki bara almenningsvagnar sem ganga innan höfuðborgarsvæðisins og í stærstu bæjum landsins. Þá er spurt, hver á að greiða fyrir það? Eðlilegt er að ríkið setji eitthvað af því fjármagni sem fer í að greiða niður almenningssamgöngur í landinu í að bæta aðgengi allra að þeim. Gerð hefur verið krafa til SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) í rúm þrjú ár að hluti stofnleiða verði gerðar aðgengilegar með því að taka fyrst og fremst biðstöðvarnar í gegn. Áhugi SSH hefur ekki verið fyrir hendi og enginn raunveruleg breyting því í augsýn.

Ekki er mikil bjartsýni á að ný framkvæmdaáætlun breyti miklu þar um, því flöskuhálsinn er ávallt að afar takmarkað fjármagn fylgi svona áætlunum þó margir komi að og mikil vinna liggi að baki (með tilheyrandi kostnaði), þannig að þær enda allt of oft sem eins konar óskalisti sem tekur sig vel út á glærukynningum. Jafnvel hafa dómar bæði í héraði og Hæstarétti staðfest þetta einnig. Má þar nefna nýlegan dóm Hæstaréttar í máli fatlaðrar konu sem vildi búa heima hjá sér, en fær ekki nægan stuðning Reykjavíkurborgar en sem nemur annarri hverri viku. Dómur féll gegn henni. Þá er mál Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra í héraðsdómsmáli gegn Reykjanesbæ varðandi fasteign vegna samkomustaðar í Reykjanesbæ sem er á annarri hæð án lyftu. Málið var dæmt Reykjanesbæ í vil. Í báðum tilfellum var vísað í margumræddan samning. Dómstólar benda hins vegar á að hann hafi enn ekkert lagalegt gildi í dag.

Því er spurt hvort raunverulega standi einhver sannfæring að baki nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks, annað en óskir um betri tíð og blóm í haga til hana fötluðum landsmönnum?

Spyr sá sem ekki veit.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×