Erlent

Rauðgrænir mælast með hreinan meirihluta í Svíþjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Skoðanakannanir benda til þess að Stefan Löfven, formaður sænskra Jafnaðarmanna, verði næsti forsætisráðherra Svíþjóðar. Þingkosningar fara fram í landinu þann 14. september.
Skoðanakannanir benda til þess að Stefan Löfven, formaður sænskra Jafnaðarmanna, verði næsti forsætisráðherra Svíþjóðar. Þingkosningar fara fram í landinu þann 14. september. Vísir/AFP
Rauðgrænu flokkarnir mælast með öruggt forskot á fylkingu hinna borgaralegu ríkisstjórnarflokka í nýjustu könnun Ipsos, nú þegar tæpur mánuður er til þingkosninga. Könnunin bendir til að flokkur Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra muni missa um þriðjung fylgis síns milli kosninga.

Jafnaðarmannaflokkurinn, Umhverfisflokkurinn og Vinstriflokkurinn mælast með samtals 50,4 prósent atkvæða í nýjustu könnun Ipsos og sagt er frá í Dagens Nyheter. Bandalag hægriflokksins Moderaterna, Miðflokksins, Kristilegra demókrata og Þjóðarflokksins mælist með samtals 35,6 prósent.

Kosið verður til þings í Svíþjóð þann 14. september næstkomandi og er margt sem bendir til að stjórnartíð Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra kunni senn að vera á enda.

Miðflokkurinn tapar mestu milli kannanna og mælist nú rétt fyrir ofan fjögurra prósenta þröskuldinn til að ná mönnum inn á þing. Kristilegir demókratar bæta við sig fylgi og mælast aftur fyrir ofan fjögurra prósenta þröskuldinn.

Flokkurinn Feminískt frumkvæði mælist með 3,4 prósenta fylgi og næði að óbreyttu ekki inn manni á þing. Flokkurinn hefur aldrei verið með fulltrúa á þingi, en náði þó inn manni á Evrópuþingið í kosningunum í maí.

Svíþjóðardemókratar, sem vilja takmarka straum innflytjenda til Svíþjóðar og standa utan bandalaga, mælast svo með 9,4 prósenta fylgi.

Moderaterna, flokkur Reinfeldts, mælist nú með 20,8 prósenta fylgi sem er rúmum níu prósentum undir kjörfylgi flokksins. Helsta von þeirra virðist því vera að ná að lokka til sín kjósendur sem hafa enn ekki gert upp hug sinn.

Svíar opni hjörtu sín fyrir fleira flóttafólki

Kosningabarátta flokkanna er í fullum gangi og vöktu orð Reinfeldts um að kjósendur ættu að opna hjörtu sín fyrir móttöku fleira flóttafólks mikla athygli. Moderaterna hafa sömuleiðis hrundið af stað nýrri auglýsingaherferð þar sem þeir vara kjósendur við þau áhrif sem möguleg valdaskipti kunni að hafa í för með sér.

Talsmaður Moderaterna tilkynnti í gær að flokkurinn væri á þeirri skoðun að stærri fylkingin ætti að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum, sama þó hún fengi ekki hreinan meirihluta.

Karl-Petter Thorwaldsson, forseti sænska Alþýðusambandsins sem er með náin tengsl inn í Jafnaðarmannaflokkinn, segist hins vegar vera reiðubúinn að veðja á að Fredrik Reinfeldt hyggi á að stjórna landinu áfram með stuðningi Svíþjóðardemókrata.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×