Íslenski boltinn

Rasmus á leið frá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rasmus í leik með KR í sumar.
Rasmus í leik með KR í sumar. Vísir/Andri Marinó

Rasmus Christiansen er að öllum líkindum á leið frá KR en það staðfesti Bjarni Guðjónsson, þjálfari liðsins, í samtali við Vísi í dag.

„Ég tel það mjög ólíklegt [að hann verði áfram í KR],“ sagði Bjarni en Indriði Sigurðsson sneri aftur í KR nú í haust eftir langa dvöl í atvinnumennsku.

Bjarni ræddi við Rasmus áður en hann fór í frí í haust og reiknar hann með því að mál hans fái fljótt niðurstöðu.

„Hann verður örugglega áfram á Íslandi en það hafa þrjú lið verið að spyrjast fyrir um hann. Tvö þeirra hafa náð samkomulagi við KR,“ en Rasmus hefur verið orðaður við Val, ÍBV og Fjölni.

Vil ekki tjá mig um Aron

KR-ingar hafa samkvæmt heimildum Vísis áhuga á Aroni Sigurðarsyni, leikmanni Fjölnis, en Bjarni vildi ekki tjá sig um það.

„Aron er samningsbundinn Fjölni og ég vil helst ekki tjá mig um leikmenn sem eru á samningi hjá öðrum liðum,“ segir þjálfarinn.

Bjarni Guðjónsson.Vísir

Fyrrum leikmaður Liverpool á reynslu

Emmanuel Henry Gomis Mendy er nú til reynslu hjá KR og lék með liðinu sem bakvörður í sigri þess á Breiðabliki í Bose-bikarnum. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég sá hann spila og hann stóð sig ágætlega,“ sagði Bjarni en framhaldið er óráðið.

„Það kom fremur óvænt upp að hann kom til okkar og við ákváðum að slá til. Við höfum ekki verið að leita að leikmönnum enda nokkuð sáttir við hópinn. Mendy verður eitthvað með okkur áfram og við sjáum svo til.“

Þess má geta að Mendy lék með yngri liðum Liverpool á sínum tíma en náði ekki að komast í aðallið félagsins. Hann er 25 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×