Viðskipti innlent

Rannveig og félagar tekin fyrir í dómssal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sakborningar í dómssal í morgun.
Sakborningar í dómssal í morgun. Vísir/GVA
Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi forstjóra og stjórnarmönnum SPRON hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri sparisjóðsins, er ákærður ásamt fyrrum stjórnarmönnunum Rannveigu Rist, Jóhanni Ásgeir Baldurs, Margréti Guðmundsdóttur og Ara Bergmann Einarssyni. Þau hafa öll neitað sök.

Fimmmenningunum er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu þegar SPRON lánaði Existu tvo milljarða króna rétt fyrir hrun, eða þann 30. september 2008.

Saksóknari telur að ákærðu hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga auk þess sem lánið sé óvenjulegt, eins og segir í ákæru, þar sem um er að ræða eina lánið sem stjórn sparisjóðsins samþykkti á árunum 2007-2008.

Í ákæru segir að lán SPRON til Exista hafi verið án allra trygginga. Þá hafi ekki farið fram mat á stöðu Existu og greiðslugetu, þrátt fyrir að ákærðu hafi hlotið að vera ljóst að eignir þess hefðu fallið mikið í verði á mörkuðum auk þess sem gengi hlutabréfa í Exista hafi fallið mjög á mörkuðum.

Áætlað er að aðalmeðferð í málinu taki þrjá daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×