Innlent

Rann­sóknarög­reglu­maður fær tvær milljónir vegna til­færslu frá Sér­stökum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglumaðurinn sætti sig ekki við launalækkunina sem fylgdi tilfærslunni. Lögreglumaðurinn á myndinni er ekki sá sem um ræðir í fréttinni.
Lögreglumaðurinn sætti sig ekki við launalækkunina sem fylgdi tilfærslunni. Lögreglumaðurinn á myndinni er ekki sá sem um ræðir í fréttinni. vísir/hari
Íslenska ríkið þarf að greiða lögreglumanni rúmar tvær milljónir króna, og milljón betur í málskostnað, vegna vangoldinna launa. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok síðasta mánaðar en birtur síðasta föstudag.

Lögreglumaðurinn starfaði hjá embætti Sérstaks saksóknara en var færður í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 1. nóvember 2014. Við það lækkaði hann í launum – hjá Sérstökum hafði maðurinn ríflega 700 þúsund krónur í laun en hjá LRH voru laun hans allt að 200 þúsund krónum lægri.

Þegar lögreglumanninum var tilkynnt að færa ætti hann til LRH samþykkti hann það með fyrirvara um að hann myndi krefja Sérstakan saksóknara um greiðslu fullra launa þar til þrír mánuðir væru liðnir frá því að embættið væri lagt niður.

Lögreglumaðurinn taldi að hann hafi ekki verið leystur frá störfum hjá Sérstökum saksóknara heldur færður til í starfi. Hann fór því fram á að sér yrði greiddur launamismunur frá nóvember 2014 til mars 2016 en þá voru liðnir þrír mánuðir frá því að embætti Sérstaks saksóknara var lagt niður.

Í starfsmannalögum er kveðið á um að sé embættismaður fluttur í annað, lægra launað embætti, skuli greiða honum launamismun fyrir þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embætti. Dómari féllst á röksemdir lögreglumannsins um að hann hefði verið fluttur til í embætti en ekki leystur frá störfum. Því var ríkið bótaskylt. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×