Viðskipti innlent

Rannsóknarnefnd Alþingis: Aðkoma Hauck & Aufhäuser aðeins til málamynda við kaup á Búnaðarbanka

Hörður Ægisson skrifar
Tilkynnt var um sölu á 45,8 prósenta hlut ríkisins í Búnaðarbanka til Eglu ehf. í janúar 2003.
Tilkynnt var um sölu á 45,8 prósenta hlut ríkisins í Búnaðarbanka til Eglu ehf. í janúar 2003. vísir/gva
Aðkoma þýska bankans Hauck & Auf­häuser að kaupum á 45,8 prósenta eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003 var í „reynd aðeins að nafni til“ að mati sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis og voru kaupin fjármögnuð í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings. Samkvæmt gögnum sem nefndin hefur aflað sér verði ekki annað séð en „að fjárfesting Hauck & Auf­häuser í gegnum Eglu hf. í, og síðar með sama hætti eignarhald á, hlutum í Búnaðarbankanum hafi […] aðeins verið til málamynda og tímabundið“, auk þess sem þýska bankanum hafi verið „tryggt skaðleysi af þátttöku sinni í þessum viðskiptum“.

Þetta kemur fram í bréfi rannsóknarnefndarinnar frá því 13. mars síðastliðinn sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Í bréfinu segir að gögn og upplýsingar nefndarinnar „sýna að dagana áður en skrifað var undir kaupsamning Eglu hf. og annarra lögaðila (það er hins svonefnda S-hóps) um kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum hf. 16. janúar 2003, stóð hópur manna að gerð tveggja samninga varðandi hluti Hauck & Auf­häuser í Eglu hf. á milli annars vegar Hauck & Aufhäuser og hins vegar aflandsfélagsins Welling & Partners Limited, skráðu á Bresku-Jómfrúareyjum, sem Kaupþing hf. útvegaði til að standa að samningnum.“

Þar var um að ræða svonefndan söluréttarsamning (e. Put Option Agreement) en hinn samningurinn varðaði veð- og tryggingaráðstafanir (e. Pledge and Security Agreement). Þeir sem stóðu að gerð þessara samninga, að því er kemur fram í bréfi nefndarinnar, voru meðal annars „nokkrir starfsmenn“ Kaupþings á Íslandi og dótturfélags þess í Lúxemborg og auk þess starfsmenn Hauck & Auf­häuser, einkum þá Martin Zeil, þáverandi forstöðumaður lögfræðideildar bankans.

Í bréfinu segir að ekki verði séð „að íslenska ríkið eða aðrar stofnanir þess hafi á nokkru stigi verið upplýst um gerð þessara samninga, efni þeirra og áhrif, sem og atvik varðandi síðari framkvæmd þeirra.“ Kaupþing sameinaðist Búnaðarbanka þremur mánuðum eftir söluna á hlut ríkisins. Rúmum tveimur árum eftir að þýski bankinn eignaðist hlut í Búnaðarbankanum í gegnum félagið Eglu var hann búinn að selja allan hlutinn til annarra hluthafa innan S-hópsins en á meðal þeirra sem leiddu þann hóp var Ólafur Ólafsson fjárfestir.

Alþingi samþykkti í júní í fyrra þingsályktunartillögu um að aðkoma Hauck & Auf­häuser að kaupum S-hópsins á 45,8 prósenta hlut ríkisins fyrir um 11,9 milljarða yrði rannsökuð af sérstakri rannsóknarnefnd sem hefði víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Sá sem fer með rannsóknina er Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari en gert er ráð fyrir að skýrsla nefndarinnar verði birt opinberlega á miðvikudaginn.

Fram kemur í bréfi rannsóknarnefndarinnar, sem var sent á ýmsa einstaklinga sem höfðu aðkomu að kaupunum og þar sem óskað var eftir frekari skýringum þeirra rétt áður en vinnu við skýrsluna lyki, að samkvæmt gögnum nefndarinnar hafi þýski bankinn „enga fjárhagslega áhættu tekið“ með þessum viðskiptum. „Fjárhagslegir hagsmunir bankans af þeim hafi takmarkast við þóknun sem samið var um samkvæmt samningunum en öll hagnaðarvon af umræddum hlutum í Eglu hf. þess í stað verið áskilin gagnaðila bankans að samningunum, það er fyrrgreindu aflands­félagi, Welling & Partners Limited.“

Þá bendir rannsóknarnefndin á að hún hafi einnig undir höndum gögn sem varpi ljósi á framkvæmd samninganna um sölurétt og veð- og tryggingaráðstafanir og ráðstafanir sem þeim tengdust, meðal annars af hálfu starfsmanna Kaupþings á Íslandi og Kaupþings í Lúxemborg. „Má þar einkum nefna viðskipti milli Hauck & Auf­häuser og Welling & Partners Limited með umrædda hluti í Eglu hf. sem fóru fram á grundvelli ákvæða samninganna á næstu misserum eftir gerð þeirra og fjárhagslegt uppgjör sem átti sér stað á hagnaði aflands­félagsins vegna þeirra viðskipta,“ segir í bréfinu.

Í svarbréfi Ólafs Ólafssonar til nefndarinnar, sem Fréttablaðið hefur einnig undir höndum, er fullyrt að „engum blekkingum [hafi] verið beitt gagnvart ríkinu“ þegar hluturinn í Búnaðarbanka var keyptur. S-hópurinn hafi boðið hæsta verð fyrir hlutinn og ríkið hafi fengið kaupverðið greitt að fullu.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka.
Segist ekki hafa notið ávinnings af viðskiptunum

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir í svarbréfi sínu til rannsóknarnefndarinnar 20. mars að hann „reki ekki minni“ til aflandsfélagsins Welling & Partners Limited sem nefndin telur að Kaupþing hafi útvegað til að standa að samningum sem gerðir hafi verið vegna viðskiptanna. Hann bendir á að viðskiptin hafi átt sér stað fyrir meira en 14 árum og að rannsóknarnefndin hafi ekki lagt fram nein gögn þegar hann mætti til skýrslugjafar sem gátu skýrt hverju hún væri að leita að.

„Ég hef því ekki átt kost á því að staðreyna hvort lýsing málsatvika í bréfi þínu sé rétt.“ Þá segir Sigurður að um starfsemi bankans hafi gilt bankaleynd og að Kaupþing hafi verið umsvifamikill aðili í bæði lána- og afleiðuviðskiptum.

„Ég get fullyrt við þig að ég naut ekki ávinnings af þeim viðskiptum sem lýst er í bréfi þínu. Þá get ég upplýst þig um að ég veit ekki annað en að hinn þýski banki Hauck & Auf­häuser hafi verið hluthafi í Búnaðarbankanum og síðar í sameinuðum banka Kaupþings Búnaðarbanka hf. í gegnum eignarhald í félaginu Eglu hf. Fulltrúi bankans var eftir sameiningu bankanna kjörinn í bankaráð Kaupþings Búnaðarbanka og sinnti skyldum sínum vel í stjórn bankans.“

Þá gagnrýnir Sigurður í bréfinu þá fyrirætlan að skila skýrslu á grundvelli þessara gagna „án þess að hafa einu sinni kynnt þau eða borið undir mig“ og segir að það veki hjá honum „ótta um að rannsóknin sé hrein sýndarmennska og væntanlegar niðurstöður í skýrslu þinni verið fyrirfram ákveðnar.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

„Hauck & Aufhäuser var leppur það er alveg augljóst“

Í undirbúningi er þingsályktunartillaga um sérstaka rannsókn á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans. Tilefnið er bréf umboðsmanns Alþingis. Bankinn virðist hafa verið fjármagnaður af Kaupþingi banka til að auðvelda sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings í maí 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×