Innlent

Rannsókn íslensks læknis: Óvinnufærir vegna löngunar til kynlífs

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Monika Emilsdóttir segir að rannsókn hennar hafi staðfest grun um að þeir sem haldnir séu ofsalegri kynlífslöngun séu vansælir.
Monika Emilsdóttir segir að rannsókn hennar hafi staðfest grun um að þeir sem haldnir séu ofsalegri kynlífslöngun séu vansælir.
Margir danskir karlar, sem haldnir eru ofsalegri kynlífslöngun, stunda sjálfsfróun í 10 til 15 klukkustundir á dag til að draga úr andlegri vanlíðan sinni. Þeir eru því í raun óvinnufærir. Margir eru í þremur til fjórum samböndum og sumir í allt að 10 til 20 samböndum. Þetta er niðurstaða rannsóknar íslensks læknis, Moniku Emilsdóttur, sem gerð var í samvinnu við starfsmenn sérstakrar deildar Geðspítalans í Kaupmannahöfn (Sexologisk klinik, Psykiatrisk Center København) þar sem tekið er á vanda sem tengist kynlífi á einn eða annan hátt. Niðurstöðurnar hafa vakið mikla athygli í Danmörku.

Um var að ræða lokaverkefni Moniku í læknanáminu, að því er hún greinir frá í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að rannsakaðir hafi verið 156 karlar sem vísað hafi verið til geðdeildarinnar frá heimilislæknum, sálfræðingum og geðlæknum. „Við fengum staðfestan þann grun að þeir sem haldnir eru þessari ofsalegu kynlífslöngun séu mjög vansælir. Það er hægt að flokka þá með þunglyndissjúklingum og þeir leita í kynlíf til að flýja veruleikann.“

Monika, sem starfar sem læknir á Kaupmannahafnarsvæðinu og stefnir á nám í geðlækningum, segir þessa karla þurfa að viðhalda spennunni í lífi sínu á þennan hátt.

„Um leið og þeir eru búnir að fá fullnægingu sökkva þeir niður í eymdina. Þess vegna halda þeir sér á floti með kynlífi í svona margar klukkustundir á sólarhring. En þátttakendur í rannsókninni voru þeir sem eru allra verst haldnir af kynlífslöngun.“

Rannsóknin leiddi í ljós að 20 prósent karlanna höfðu verið beitt kynferðislegu ofbeldi. „Allt bendir til að flestir séu bugaðir af einhverju og leiti í kynlíf alveg eins og alkóhólistar leita í áfengi.“

Monika getur þess jafnframt að önnur rannsókn, sem nú er í gangi, bendi til að enginn munur sé á magni karlkynshormóna karla með ofsalega kynlífslöngun og annarra karla.

Hópmeðferð hefur verið notuð til að hjálpa körlunum auk þess sem þeir fara í viðtöl hjá sálfræðingum og geðlæknum, að því er Monika greinir frá. „Það þarf að vinna með það sem gerir það að verkum að þeir leita svona mikið í kynlíf. Þeir þurfa að læra að lifa með þessu. Það er ekki hægt að segja að þeir megi aldrei stunda kynlíf aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×