Viðskipti innlent

Rannsókn á Lindsor-málinu enn opin í tveimur löndum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þrír rannsakendur frá Lúxemborg yfirheyrðu menn á Íslandi í desember síðastliðnum í tengslum við rannsókn á lánveitingu Kaupþings til félagsins Lindsor Holding í miðju bankahruni haustið 2008. Lánveitingin til Lindsor er til rannsóknar bæði hér á landi og í Lúxemborg en héraðssaksóknari hefur sett málið í bið á meðan niðurstaða fæst í rannsóknina ytra.

Þann sjötta október árið 2008 lánaði Kaupþing félaginu Lindsor Holding Corporation 171 milljón evra.

Þetta gerðist sama dag og bankinn fékk stóran hluta neyðarfjár íslenska ríkisins að láni hjá Seðlabanka Íslands og sama dag og neyðarlögin voru sett. Þremur dögum síðar var Kaupþing banki fallinn.

Þessi lánveiting hefur nú verið til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og Lúxemborg í rúm átta ár vegna gruns um umboðssvik.

Fyrrverandi stjórnendur Kaupþingss banka og vildarviðskiptavinur bankans eru grunaðir í málinu en hafa ávallt neitað sök og sagt málið snúast um endurkaup á skuldabréfum.

Í Kjarnanum var greint frá því að rannsakendur frá Lúxemborg hafi komið til Íslands í desember síðastliðnum og yfirheyrt Íslendinga sem tengjast málinu.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við fréttastofu að yfirvöld á Íslandi og Lúxemborg hafi verið í samskiptum og samstarfi við rannsókn málsins frá árinu 2009.

Íslensk yfirvöld hafi rannsakað málið í Lúxemborg, fengið gögn og leitað eftir aðstoð þarlendra yfirvalda. Nú sé því öfugt farið og embætti héraðssaksóknari hafi aðstoðað lögregluyfirvöld í Lúxemborg við rannsókn eftir að lögð var fram réttarbeiðni þess efnis.

Bæði Ísland og Lúxemborg eru aðilar að Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum og réttarbeiðni um aðstoð er lögð fram á grundvelli heimildar í þeim samningi.

Ólafur Þór gat ekki gefið frekari upplýsingar um aðgerðina í desember sem var alfarið á vegum yfirvalda í Lúxemborg. Hann sagði rannsókn embættis héraðssaksóknara á Lindsor-málinu vera í bið á meðan niðurstaða fæst í rannsóknina í Lúxemborg.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×