Innlent

Rannsaka hvort andlát íslenskrar konu tengist neyslu læknadóps

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar hvort andlát íslenskrar konu aðfaranótt fimmtudags tengist neyslu læknadóps. 

Konan sem lést er um þrítugt og lést hún í heimahúsi aðfaranótt fimmtudags. Grunur leikur á að konan hafi misnotað lyfseðilsskyld lyf en ekki fengust upplýsingar um hvaða lyf það væru. Rannsókn málsins er skammt á veg komin en miðar vel að sögn lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu eru 27 dauðsföll á árinu til skoðunar þar sem grunur leikur á að dauðsföllin megi rekja til lyfjaeitrunar. Árið 2015 voru dauðsföllin 36.

Þá er enn í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hvort andlát ungs manns í lok ágúst tengist neyslu læknadóps en annar ungur maður missti meðvitund sömu nótt og leikur grunur á að það tengist neyslu á sama lyfi eða lyfinu Fentanýl. Enn er beðið eftir endanlegri niðurstöðu í þeim málum.

Embætti landlæknis og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu funduðu um misnotkun lyfseðlisskyldra lyfja hér á landi í byrjun september. Bæði embættin hafa áhyggjur af misnotkun lyfjanna meðal ungs fólks í dag. Niðurstaða fundarins var meðal annars sú að embættin vinni nú nánar saman að því að upplýsa hvaðan lyfin koma og hvernig fólk verður sér úti um þau.


Tengdar fréttir

Fentanýl gengur kaupum og sölum á Facebook

Umræða um lyfið fentanýl komst í hámæli eftir að ungur maður lést um síðustu helgi og annar missti meðvitund. Móðir manns sem lést vegna misnotkunar lyfsins árið 2013 segir Vog hafa brugðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×