Skoðun

Rannsaka hvað?

Birgir Guðjónsson skrifar
Sænsk-íslenska plastbarkamálið er prófsteinn á heilbrigðiskerfi viðkomandi landa. Það sænska reynir að bæta starfshætti, en það íslenska kolfellur. Skiptir það máli að tilraunasjúklingurinn sem sendur var frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi til Karólinska sjúkrahússins var ekki íslenskur ríkisborgari?

Í Svíþjóð er viðurkennt að plastmarkamálið sé mikill álitshnekkir fyrir sænskt heilbrigðiskerfi og merkustu stofnun þess, Karólinska Institut og sjúkrahús. Nóbelsnefndarmenn hafa þurft að segja af sér. Öll stjórn Karolinska Institut var rekin af ríkisstjórn Svíþjóðar, jafnvel þeir sem voru fjarri ákvarðanatöku eða aðgerð, sem og margir yfirmenn. Almenningur er þannig laus undan dómgreind og ákvarðanatöku þessara aðila.

Hvað með Ísland?

Íslenskir læknar voru virkir aðilar að plastbarkamálinu, með tilvísun fyrsta sjúklings, leyfisveitingu aðgerðar, þátttöku í aðgerð og „vísindaskrifum“.

„Óháð“ rannsóknarnefnd hefur verið af skipuð af Háskóla Íslands og Landspítala en eingöngu skipuð eigin fólki, fyrrum háskólakennara og nemendum, en engum utanaðkomandi! Umræður um hæfi dómara með tilliti til tengsla við álitaefnið virðast hafa farið fram hjá ráðamönnum þessara stofnana.

Háskólinn hefur þegar vegsamað aðild sína með kynningu í Hátíðasal Háskólans. Landspítalinn sem vísaði fyrsta sjúklingnum í þessa tilraunaaðgerð hefur lýst yfir trausti á eigin læknum og framkvæmd. Læknarnir hafa mikið látið á sér bera fyrir framtakssemi og dáðir í óskyldum málum, röggsemi í embættisframkvæmd og jafnvel deilt opinberlega um hver beri meiri umhyggju fyrir LSH. Hvernig væri að rannsaka að fyrrum forstjóri Karólinska sjúkrahússins sem í raun leyfði aðgerðina og væri ekki lengur gjaldgengur til stjórnunarstarfa þar í landi skuli vera gerður að landlækni á Íslandi og æðsta yfirmanni íslensks heilbrigðiskerfis? Póli­tísk embættisveiting með óáfrýjanlegu valdi tryggir ekki faglega dómgreind. Það er nauðsynlegt að yfirmenn njóti trausts undirmanna.

Skyldi myglan á fjársveltu hjúkrunarheimili vera óbætanlegri en myglan á LSH?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×