Viðskipti innlent

Rannsaka fjárdrátt í MP banka

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gærkvöldi kemur fram að grunur um misferli í starfi sé litinn alvarlegum augum.
Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gærkvöldi kemur fram að grunur um misferli í starfi sé litinn alvarlegum augum. VÍSIR/VALLI
MP banki hefur kært starfsmann sinn til lögreglu fyrir meintan fjárdrátt. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var starfsmönnum MP banka tilkynnt um málið á fundi í gær.

Samkvæmt heimildum blaðsins komst málið upp þegar starfsmaður bakvinnslu rakst á að afstemmingar í kerfum bankans stemmdu ekki. Var stjórnendum bankans þá gert viðvart um að ekki væri allt með felldu.

Veit blaðið til þess að starfsmaðurinn sem kærður var er kvenkyns og að henni var vikið frá störfum í gær. Konan var einnig starfsmaður í bakvinnslu hjá MP banka og hafði umboð til millifærslna starfa sinna vegna.

Um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða, en ekki liggja enn fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu háar þær eru.

Einn heimildarmanna Fréttablaðsins innan bankans orðaði það svo í gærkvöldi að þær væru ekki svo háar að þær hefðu áhrif á starfsemi bankans eða viðskiptavini hans.

,,Rannsóknin er á algjöru frumstigi. Ég get ekki tjáð mig um neinar fjárhæðir þar sem ekki er búið að ná utan um þær enda málið á byrjunarreit,“ segir Hafliði Þórðarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann áréttar þó að rannsókn málsins sé hafin nú þegar.

Í tilkynningu sem MP banki sendi frá sér vegna málsins í gærkvöldi kemur fram að innan bankans sé málið litið alvarlegum augum, en það snúi ekki að fjármunum viðskiptavina hans.

Uppfært klukkan 9:33

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð að afleysingastarfsmaður hefði rekist á að uppgjör innan bankans stemmdu ekki. Hið rétta er að starfsmaður í bakvinnslu áttaði sig á því að afstemmingar í kerfum bankans stemmdu ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×