Innlent

Rannsaka erfðafræði áfengissýki

Íslensk erfðagreining og SÁÁ hafa snúið bökum saman með samstarfssamningi um rannsóknir á erfðafræði áfengissýki. Evrópusambandið styrkir verkefnið um 330 milljónir króna, sem er hæsta upphæð sem sambandið hefur veitt til rannsókna hér á landi. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og yfirlæknir SÁÁ undirrituðu samning um rannsóknirnar á blaðamannafundi sem boðað var til vegna samstarfsins, en samningurinn er liður í viðamiklu, evrópsku samstarfsverkefni átta rannsóknarstofa þar sem kanna á líffræðilegar orsakir áfengisfíknar. Aðstandendur verkefnisins benda á að áfengissýki sé stórt vandamál í íslensku samfélagi og meginmarkmið rannsóknarinnar sé að auka skilning á erfðafræði áfengissýki og annarrar fíknar. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að þekkingu á erfðafræði áfengissýki skorti. Vonast sé til að með hún aukist með rannsókninni og það leiði til betri aðferða til að takast á við, koma í veg fyrir og til að lækna sjúkdóminn. Evrópusambandið hefur veitt 330 milljónir króna til verkefnisins hér á landi, sem er hæsta upphæð sem sambandið hefur veitt til rannsókna á Íslandi. Stefnt er að því að þátttakendur í rannsókninni verði að minnsta kosti tvö þúsund. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, segir verkefnið hafa mikla þýðingu þar sem það leiði til aukinnar þekkingar á áfengisfíkninni þannig að hægt verði að þróa betri meðferðarúrræði og forvarnir. SÁÁ mun hafa samband við sjúklinga og biðja um leyfi og fá blóð úr þeim til rannsóknar, en bæði vísindasiðanefnd og Persónuvernd fjalla um rannsóknina eins og aðrar rannsóknir. Þórarinn Tyrfingsson segir að SÁÁ komi til með að halda utan um allar upplýsingar um einstaklinga en Íslensk erfðagreining fái blóðið án þess hægt sé að tengja það manneskjunni sem gaf það. Fyrirtækið vinni úr því og öðrum upplýsingum án þess að það geti persónugreint upplýsingarnar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×