Enski boltinn

Ranieri ekki viss hvort hann muni sjá leik Chelsea og Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ranieri hefur gert frábæra hluti með Leicester í vetur.
Ranieri hefur gert frábæra hluti með Leicester í vetur. vísir/getty
Claudi Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City, er ekki viss hvort hann muni horfa á leik Chelsea og Tottenham á morgun.

Sá leikur hefur mikla þýðingu fyrir Leicester en takist Tottenham ekki að vinna á Brúnni verða lærisveinar Ranieris Englandsmeistarar.

„Ég myndi vilja sjá leikinn en ég á bókað flug til Ítalíu,“ sagði Ranieri eftir leikinn á Old Trafford í dag þar sem Leicester og Manchester United skildu jöfn, 1-1.

„Móðir mín er 96 ára gömul og ég myndi vilja borða með henni. Ég verð örugglega síðastur allra til að frétta hvernig leikurinn fór.“

Tottenham hefur gengið bölvanlega á Stamford Bridge í gegnum árin og ekki unnið þar frá því í febrúar 1990. Þrátt fyrir það gerir Ranieri ráð fyrir sigri Spurs á morgun.

„Ég geng út frá því að Tottenham vinni alla þrjá leikina sína. Ég einbeiti mér bara að Everton-leiknum,“ sagði Ranieri en Leicester tekur á móti Everton um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×