Enski boltinn

Ranieri: Væri til í að segja "Já við getum þetta“ en ég er ekki Obama

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Claudio Ranieri heldur sér á jörðinni.
Claudio Ranieri heldur sér á jörðinni. vísir/getty
Leicester City, sem er afar óvænt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 24 umferðir, á risastóran leik fyrir höndum í hádeginu á morgun.

Refirnir heimsækja þá Manchester City sem er þremur stigum á eftir toppliðinu, en sigur hjá lærisveinum Claudio Ranieri kæmi þeim í sex stiga forskot. Þá fyrst gæti mönnum farið að dreyma um Englandsmeistaratitilinn fyrir alvöru.

Leicester sýndi svo um munaði að það ætlar að berjast um titilinn til lokadags ef hægt er með því að vinna sannfærandi sigur á Liverpool, 2-0, á þriðjudagskvöldið þar sem Jamie Vardy komst aftur í gang og skoraði tvö mörk.

Ranieri sló á létta strengi á blaðamannafundi fyrir leikinn gær - eins og svo oft áður á leiktíðinni -  og vitnaði í kosningaslagorð Baracks Obama Bandaríkjaforseta frá því 2008 þegar hann var fyrst kosinn til starfa.

„Ég væri til í að segja: „Já, við getum þetta,“ en ég er ekki Obama,“ sagði Ranieri. „Yes we can“-slagorð Obama er eitt það eftirminnilegasta og áhrifaríkasta í bandarískum kosningaherferðum undanfarna áratugi.

„Auðvitað erum við litla liðið. Við verðum áfram að leggja mikið á okkur. Verum bara rólegir, rólegir, rólegir. Stuðningsmennirnir mega láta sig dreyma en við höldum fótunum á jörðinni. Það væri enn ótrúlegur árangur fyrir okkur að ná Meistaradeildarsæti,“ sagði Claudio Ranieri.


Tengdar fréttir

Jamie Vardy afgreiddi Liverpool | Sjáið mörkin hans

Jamie Vardy skoraði bæði mörk Leicester City í kvöld þegar liðið vann 2-0 heimasigur á Liverpool og hélt þar með þriggja stiga forskoti sínu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×