Enski boltinn

Ranieri: Þetta gerist bara einu sinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ranieri hefur gert frábæra hluti með Leicester í vetur.
Ranieri hefur gert frábæra hluti með Leicester í vetur. vísir/getty
Claudio Ranieri var mættur á æfingasvæðið með lið sitt, Leicester, sem tryggði sér Englandsmeistaratitilinn í gær þegar Totenham mistókst að vinna Chelsea.

Ranieri hitti þar fjölmiðlamenn sem spurðu hann hvort hans menn ættu möguleika á að endurtaka leikinn og verða aftur meistari á næsta ári.

„Nei,“ var svar hans en benti á að hann vill halda áfram að byggja upp lið sitt. „Þegar ég kom hingað var verkefnið að byggja upp gott lið frá grunni. Markmiðið var að gera atlögu að sæti í Evrópudeildinni á 3-4 árum og svo hægt og rólega blanda okkur í baráttuna um Meistaradeildar sæti.“

Það er því óhætt að fullyrða að Ranieri sé á undan áætlun en hann ætlar engu að síður að halda áfram með verkefnið.

„Ég hef engan áhuga á að selja leikmenn en ég vil heldur ekki halda óánægðum leikmönnum hjá félaginu. Við viljum styrkja liðið en með leikmönnum sem eru með skapgerð sem hentar okkur. Við erum allir mjög vel tengdir og allir sem koma inn þurfa að vita hversu mikið við leggjum á okkur.“

Ranieri var ekki með leikmönnum í gærkvöldi en flestir komu þeir saman heima hjá Jamie Vardy til að horfa á leikinn.

„Ég var heima með eiginkonu minni. Það var ekkert meira. Ég ræddi við fjölskyldu mína heima og það er allt og sumt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×