Innlent

Rangfeðraður maður vill lífsýni úr látnum manni

Bjarki Ármannsson skrifar
Lífsýni úr ætluðum föður mannsins er varðveitt á Landspítala.
Lífsýni úr ætluðum föður mannsins er varðveitt á Landspítala. Vísir/Vilhelm
Persónuvernd tók fyrir á fundi sínum í dag erindi manns sem óskaði eftir leyfi til að fá aðgang að lífsýni látins manns, sem hann telur að gæti hafa verið faðir sinn.

Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að manninum bæri frekar að leita úrskurðar dómstóla en dómstólum er lögum samkvæmt falið að heimila erfðarannsóknir þegar vafi leikur á um faðerni.

Í erindi lögmanns til Persónuverndar kemur fram að umsækjandinn komst að því fyrir stuttu að hann er ranglega feðraður. Mannerfðafræðileg rannsókn unnin í Danmörku hafi komist að því að engar líkur séu á því að skráður faðir hans væri líffræðilegur faðir hans.

Þá hafi móðir mannsins hafi tjáð honum að áður en hún hóf sambúð með skráðum föður mannsins, hafi hún átt í stuttu sambandi við annan mann. Sá er látinn en lífsýni úr honum er varðveitt á Lífsýnasafni rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala.

Í úrskurði Persónuverndar segir að hægt sé að heimila notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var þegar þau voru tekin, meðal annars til að komast að uppruna einstaklings. Þá segir í erindi lögmannsins að umsækjandinn hafi komist að því að ætlaður faðir hans hafi látist úr krabbameini og þannig séu heilsufarsleg rök fyrir því að fá úr því skorið hver líffræðilegur faðir umsækjandans er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×