Skoðun

Rangfærslur um raforkuverð

Magnús Þór Gylfason skrifar
Þorsteinn Þorsteinsson markaðsrýnir staðhæfir í grein í Fréttablaðinu í gær að Landsvirkjun hafi „hækkað raforkuverð undanfarið um tugi prósenta á matvælaframleiðendur og ýmiss konar iðnfyrirtæki“. Það er ekki rétt.

Hið rétta er, að Landsvirkjun áætlar að hækkun á meðalraf­magns­verði í heildsölu frá áramótum nemi um eða innan við 4%. Endanleg hækkun meðalverðs á árinu mun liggja fyrir í ársuppgjöri.

Orkusölu Landsvirkjunar má skipta í tvo hluta. Annars vegar er um að ræða beina raforkusölu í gegnum langtímasamninga til stórkaupenda, á borð við álver og gagnaver. Hins vegar er um að ræða svokallaða heildsölu en það er sala til orkufyrirtækja sem selja rafmagn áfram til viðskiptavina sinna sem eru m.a. heimili og önnur fyrirtæki en stóriðja. Heildsöluviðskiptavinir kaupa um helming sinnar orku af Landsvirkjun en vinna hinn helminginn í eigin virkjunum.

Þegar rýnt er í verðþróun Lands­virkjunar á heildsölumarkaði með raforku er rétt að líta til þróunar meðalverðs síðustu ára. Meðfylgjandi mynd sýnir sögulegt meðalverð í heildsölu frá árinu 2006, á verðlagi ársins 2015.

Sögulegt meðalverð Landsvirkjunar í heildsölu Ár Meðalverð heildsölu 2006 4,8 2007 4,9 2008 4,2 2009 4,0 2010 4,0 2011 4,1 2012 4,2 2013 4,2 2014 4,4 * tafla meðfylgjandi ef FBL vill teikna grafið upp
Eins og sjá má hefur það verið nokkuð stöðugt og er nú lægra en í byrjun tímabilsins, en árið 2006 kostaði kílóvattstundin sem Landsvirkjun seldi á heildsölumarkaði 4,8 krónur að meðaltali og í fyrra 4,4 krónur, og á tímabilinu fór verðið niður í fjórar krónur.

Meðalverð lægra en 2007

Við markaðsrýni er varhugavert að draga víðtækar ályktanir af verði til einstakra fyrirtækja. Um síðustu áramót var viðskiptaskilmálum Landsvirkjunar breytt, til að tryggja jafnræði viðskiptavina og til að einstaka vöruflokkar endurspegluðu vinnslukostnað og aðstæður á markaði. Því fer fjarri að hækkun á meðalrafmagnsverði í heildsölu frá Landsvirkjun nemi „tugum prósenta“ frá áramótum. Landsvirkjun áætlar sem fyrr segir að hækkunin nemi um eða innan við 4% frá áramótum, en endanleg hækkun liggur ekki fyrir fyrr en í ársuppgjöri. Meðalraforkuverð Landsvirkjunar í heildsölu mun því að öllum líkindum áfram vera lægra að raunvirði á árinu 2015 en það var árið 2007.

Landsvirkjun hefur lengi hvatt til opinnar og faglegrar umræðu um málefni fyrirtækisins en afkoma þess og starfsemi varða þjóðarhag. Best er þó að umræða fari fram á grundvelli staðreynda. 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×