Innlent

Rán og frelsissvipting í Hafnarfirði: Einn hinna grunuðu í felum af ótta við annan

Bjarki Ármannsson skrifar
Konan segir að mennirnir sex hafi beitt hana ofbeldi í marga klukkutíma og haft á brott með sér skartgripi í eigu hennar.
Konan segir að mennirnir sex hafi beitt hana ofbeldi í marga klukkutíma og haft á brott með sér skartgripi í eigu hennar. Vísir/Getty
Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa ráðist inn á heimili konu í Hafnarfirði í síðasta mánuði, beitt hana ofbeldi og rænt hana. Málið er talið tengjast fimm milljóna króna skuldar vegna fíkniefna sem lögregla lagði hald á heimili konunnar.

Konan lýsti því í skýrslutöku hjá lögreglu að sex menn, fjórir þeirra grímuklæddir, hefðu ráðist inn á heimili hennar og talað ensku og spænsku sín á milli. Þeir hafi haldið henni í um sex klukkustundir, bundið hana niður og meðal annars beitt hana ofbeldi með rafbyssu. Konan hlaut mar víða á andliti og líkama og tognaði.

Hún segir jafnframt að mennirnir hafi haft á brott með sér skartgripi og peninga í eigu hennar.

Einn hinna grunuðu í felum af ótta við annan

Atburðarásin sem rakin er í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er nokkuð flókin, en þar koma margir ónafngreindir menn við sögu. Verða þeim hér að neðan gefin dulnefni til að auðvelda lesendum Vísis lesturinn.

Konan segir að einn mannanna sem réðst á heimili hennar hafi verið Atli, maður sem flutti til landsins í fyrra fíkniefni sem lögregla lagði síðar hald á á heimili konunnar. Hún segir að Atli hafi ítrekað hringt í hana eftir árásina og hótað henni lífláti ef hún greiddi honum ekki fimm milljónir króna vegna efnanna.

Atli er einn þeirra tveggja sem Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir í gær en hann var handtekinn þann 25. febrúar síðastliðinn. Hann hefur tvisvar verið yfirheyrður vegna málsins og neitar allri aðild að því. Jafnframt segir í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að hann hafi verið mjög ósamvinnuþýður við rannsókn málsins. Atli býr erlendis en hefur nokkrum sinnum komið hingað til lands í styttri ferðir undanfarin tvö ár. Hann vill ekki segja lögreglu hvar hann gisti og dvaldi hér á landi dagana áður en hann var handtekinn.

Tveir hinna grunuðu voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í einangrun í Hæstarétti í gær en nokkrir til viðbótar hafa verið handteknir.Vísir/GVA
Hinn maðurinn sem konan segist hafa borið kennsl á við árásina er Ingvar, en lögreglu hefur ekki tekist að hafa uppi á honum þrátt fyrir mikla leit. Lögregla telur Ingvar í felum af ótta við Atla, sem ku hafa haft í hótunum við Ingvar og fólk honum tengt vegna málsins.

Nokkrir handteknir vegna málsins

Fram kemur í greinargerð lögreglu að símagagna þeirra Atla og Ingvars hafi verið aflað. Sýna þau gögn að þeir Atli og Ingvar tengjast símsendi skammt frá vettvangi árásinnar þegar hún á að hafa átt sér stað. Sömuleiðis kemur fram að þeir voru í símasamskiptum við bræðurna Birgi og Aðalstein, sem þekktir eru hjá lögreglu fyrir ofbeldis- og fíkniefnalagabrot.

Birgir er hinn maðurinn sem Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir í gær en þeir Atli munu sæta einangrun á meðan því stendur. Birgir og Aðalsteinn neita báðir aðild að árásinni og segjast ekki kannast við konuna. Þó hafa þrír borið um við lögreglu að hafa séð þá bræður með skartgripi í eigu konunnar eftir árásina og símar þeirra sjást sömuleiðis koma inn á senda við árásarstaðinn á þeim tíma sem árásin á að hafa átt sér stað.

Bræðurnir segjast hafa verið við heimilið um það leyti sem árásin átti að hafa átt sér stað að leita að manni að nafni Stefán. Annar þeirra kannast sömuleiðis við að Ingvar hafi verið með í för. Þeir geta þó ekki gefið frekari upplýsingar um þennan Stefán.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa fleiri en þeir Atli og Birgir verið handteknir og látnir sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsókn málsins. Að minnsta kosti eins, Ingvars, er þó enn leitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×