Enski boltinn

Ramos vill fara til Man United og United býður 28,6 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos hefur örugglega heyrt margt gott um Manchester United frá þeim Cristiano Ronaldo og  Javier "Chicharito" Hernandez.
Sergio Ramos hefur örugglega heyrt margt gott um Manchester United frá þeim Cristiano Ronaldo og Javier "Chicharito" Hernandez. Vísir/Getty
Sergio Ramos vill fara frá Real Madrid og Sky Sports hefur heimildir fyrir því að leikmaðurinn hafi gert forráðamönnum spænska félagsins fulla grein fyrir því.

Sky hefur jafnframt heimildir fyrir því að Manchester United hafi boðið 28,6 milljónir punda í spænska landsliðsmiðvörðinn sem vill nú hvergi annarsstaðar spila en hjá Manchester United.  

„Ramos sagði Real Madrid frá því að hann sé staðráðinn í að yfirgefa félagið í sumar og að hann vilji að félagið hefji viðræður við Manchester United og ekkert annað félag," sagði Graham Hunter, sérfræðingur Sky í spænska fótboltanum, í viðtali á Sky.

Sergio Ramos á tvö ár eftir af samningi sínum við Real Madrid en hann hefur margoft verið orðaður við Old Trafford á síðustu vikum.

Sergio Ramos er 29 ára gamall og hefur spilað með Real Madrid frá 2005. Hann hefur jafnframt spilað 128 landsleiki fyrir Spán. Hann hefur lengi verið í hópi bestu varnarmanna heims og hefur unnið allt með bæði Real Madrid og spænska landsliðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×