Fótbolti

Ramos getur bara hringt ef hann hefur eitthvað að segja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cesc Fábregas var ekki sáttur með Sergio Ramos.
Cesc Fábregas var ekki sáttur með Sergio Ramos. vísir/getty
Sergio Ramos, leikmaður Real Madrid, gaf það í skyn í viðtali við fjölmiðla í síðustu landsleikjaviku að sumir leikmanna Spánar sýndu landsliðinu ekki nógu mikinn metnað.

Cesc Fábregas, leikmaður Chelsea, gaf ekki kost á sér í leikina gegn Hvíta-Rússlands og Þýskalandi vegna meiðsla og tók þessi orð Ramosar til sín.

„Já, ég móðgaðist og sagði Sergio hvernig mér leið. Við töluðum á endanum saman í símann og nú er allt í góðu á milli okkar,“ sagði Fábregas í viðtali á útvarpsstöðinni Cande Cope.

Ramos hafði áður sagt að orðum hans væri ekki beint að Fábregas, en Chelsea-maðurinn vill samt sem áður ekki heyra svona frá liðsfélögum sínum í gegnum fjölmiðla.

„Það fór virkilega í taugarnar á mér að metnaður minn var dreginn í efa. Ég hef spilað margsinnis fyrir Spán og mætt í landsliðsferðir án þess að spila. Ég á samt 94 leiki fyrir Spán síðustu níu ár,“ sagði Fábregas.

„Ég var aumur aftan í læri og ef ég hefði spilað hefði ég getað lent í svipuðum meiðslum og Luka Modric.“

„Ég sagði Ramos að ef hann hefur eitthvað segja við mig skal hann bara rífa upp símann og hringja, en ekki senda mér skilaboð í gegnum fjölmiðla. Við erum nú eftir allt saman búnir að spila saman síðan í U21 árs liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×