Lífið

Rammskakkir Rúnar og Bubbi hittu íslenskan fjölmiðlamann í Rauða hverfinu

Jakob Bjarnar skrifar
Bubbi og Rúnar frá GCD-árunum en Bubbi kann að segja sögur af ferðum þeirra félaga um Rauða hverfið í Amsterdam, og gerir það með tilþrifum á SnapChat.
Bubbi og Rúnar frá GCD-árunum en Bubbi kann að segja sögur af ferðum þeirra félaga um Rauða hverfið í Amsterdam, og gerir það með tilþrifum á SnapChat.
Bubbi Morthens greinir frá því að hann, og Rúnar heitinn Júlíusson tónlistarmaður, hafi eitt sinn verið á ferð í Rauða-hverfinu í Amsterdam, því alræmda melluhverfi í Hollandi, hvar þeir fyrir íslenskan fjölmiðlamann. Það fylgdir sögunni að Bubbi og Rúnar hafi verið rammskakkir, af kannabisneyslu. Fjölmiðlamanninum varð mikið um að hitta þá félaga og hélt því fram við þá að hann væri þar eingöngu á kvöldgöngu en það væri þannig með sig að hann fengi martraðir eftir að hafa borðað indónesískan mat. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hver maðurinn er.

Allt þetta kemur fram á SnapChat-reikningi Bubba, Bubbinn, þar sem tónlistarmaðurinn fer mikinn. Hann fer með textabrot úr söngbók hljómsveitarinnar GCD, þar sem þeir Rúnar fóru fyrir flokki. Bubbi og Rúnar fóru einmitt fræga ferð til Amsterdam sérstaklega til að semja tónlist og texta. Fyrir dyrum standa tónleikar undir merkjum GCD og mun Pálmi Gunnarsson fara í skó Rúnars; leika á bassa og syngja.

SnapChat forritið virkar þannig að senda má frá sér stutt myndskeið til vina sinna sem svo eyðast. Bubbi sendir frá sér brot nú af miklum móð og er frásagnagleði Bubba slík að hann sendir á stundum frá sér mörg brot í senn. Frásögnin af þessum fundum tónlistarmannanna og hins ónefnda íslenska fjölmiðlamanns lýkur með yfirlýsingu Bubba þess efnis að þangað hafi þeir félagar einungis verið í menningarlegum erindagjörðum. Og hann sé sannfærður um að téður fjölmiðlamaður fái taugaáfall í hvert skipti sem rödd Bubba komi í útvarpinu; líkast til þá af ótta við að hugsanlega færi frásögnin af tíðum ferðum hans í hverfi vændiskvenna á flug.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×