Viðskipti innlent

Rammagerðin stækkar við sig í Leifsstöð: "Við erum að taka inn tugi nýrra hönnuða“

ingvar haraldsson skrifar
Lovísa Óladóttir er framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar.
Lovísa Óladóttir er framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar.
„Við erum að taka inn tugi nýrra hönnuða og handverksmanna vegna þessa aukna pláss sem við erum að fá,“ segir Lovísa Óladóttir, framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar, sem mun þann 12. júní opna stærri verslun í aðalbrottfararsal Flugsstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Rammagerðin hefur tekið yfir verslunarrými sem áður tilheyrði Bláa lóninu í flugstöðinni en hin nýja verslun verður á þriðja hundrað fermetrar.

Ferðamenn skapað tækifæri fyrirhönnuði og handverksfólk

Lovísa segir að Rammagerðin leggi mikla áherslu á að selja vörur frá íslenskum hönnuðum og handverksfólki. „Aðilarnir sem eiga vörur hjá okkur skipta hundruðum svo maður tali nú ekki um þá sem koma að framleiðslunni,“ segir hún og bætir við að aukinn ferðamannastraumur hafi skapað aukin tækifæri fyrir íslenskt handverksfólk og hönnuði að selja vörur sínar.

Lovísa bætir við að Rammagerðin hafi alla tíð lagt áherslu á að selja Íslendingum sem og útlendingum vörur sem tengjast Íslandi á einn eða annan hátt. Hönnuðir og handverksfólk sem selji vörur í verslunum þeirra starfi um allt land, séu á öllum aldri og með afar fjölbreyttan bakgrunn. „Þetta eru mikið vörur sem koma beint frá býli,“ segir hún.

Hin nýja verslun verði stærsta verslun Rammagerðarinnar en fyrir rekur Rammagerðin aðra verslun í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar auk verslana í Reykjavík og á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×