Innlent

Rakel segir ásakanir Eggerts og Sigríðar Bjarkar fráleitar

Jakob Bjarnar skrifar
Rakel telur ásakanir Eggerts Skúlasonar fráleitar og það standist einfaldlega ekki að lögreglustjóri hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann var í viðtali.
Rakel telur ásakanir Eggerts Skúlasonar fráleitar og það standist einfaldlega ekki að lögreglustjóri hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann var í viðtali.
„Með vísan í ofangreinda málavexti er fráleitt að halda því fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi á nokkurn hátt beitt blekkingum eða viðhaft óeðlileg vinnubrögð. Slíkar ásakanir standast einfaldlega ekki skoðun,“ segir Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri Ríkisútvarpsins.

Þetta segir í yfirlýsingu sem Rakel var að senda frá sér nú rétt í þessu en þar rekur hún það hvernig umdeilt viðtal Sunnu Valgerðardóttur frá árinu 2014 við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra í Reykjavík gekk fyrir sig.

„Sú ályktun ritstjóra DV um að lögreglustjórinn hafi ekki vitað að hún væri í viðtali eða að hljóðupptaka væri í gangi er því röng. Það staðfestir upptakan sjálf. Þá hefur fréttastofu aldrei borist kvörtun eða athugasemd frá lögreglustjóranum sjálfum, hvorki fyrir 14 mánuðum þegar viðtalið var birt né núna eftir að ritstjóri DV steig fram á ritvöllinn með sína túlkun á samskiptum fréttastofunnar og lögreglustjórans. Fréttastofa hefur boðið lögreglustjóranum að koma og hlusta á upptökuna og það boð stendur,“ segir jafnframt í athugasemdinni sem sjá má í heild sinni hér neðar.

Ásakanir á ásakanir ofan

Vísir greindi í gær ítarlega frá miklum ágreiningi sem upp er risinn milli Sunnu Valgerðardóttur, fyrrverandi fréttamanns á RÚV og Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV. Eggert skrifaði í nýlegum leiðara að vinnubrögð Sunnu, sem snéru að fréttaviðtali sem Sunna tók við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra í Reykjavík 22. nóvember 2014. Í leiðaranum segir meðal annars:

„Einkennilegasta dæmið í þessum fjölmiðlafarsa er viðtal sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu tók við Sigríði síðasta vetur og var það viðtal hlutdrægt, ósanngjarnt og leiða má líkur að því að viðmælandinn – lögreglustjórinn – hafi ekki áttað sig á að hún væri í viðtali. Svoleiðis gera fréttamenn ekki. Þetta viðtal fékk gamla ljósvakafréttamenn til að roðna vegna vinnubragðanna og að RÚV skyldi yfir höfuð senda þetta út í fréttatíma.“

Tölvupóstur lögreglustjóra sem Eggert Skúlason, ritstjóri DV, birti á Facebooksíðu sinni.
Sunna vísaði þessu alfarið á bug, sagði að lögreglustjóra hafi verið fullkunnugt um að hann væri í viðtali.

Vísir spurði lögreglustjóra í gær hvort hún væri til í að höggva á hnútinn og upplýsa málið, Sigríður Björk var ekki tilbúin til þess þá um morguninn en svaraði seinna um daginn fyrirspurnum sama efnis frá Eggerti og Sunnu. Þar kemur fram að lögreglustjóri hafi ekki talið sem svo að verið væri að taka upp viðtal við sig þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins hringdi í sig. Eggert birti tölvupóstinn sem hann telur sanna sitt mál og réttmæti orða sinna.

Sunna hins vegar hafnar þessu alfarið, segir þetta ekki sanna neitt og segir lögreglustjóra fara með rangt mál.

Reiðir RÚV-arar ættu að biðja lögreglustjóra afsökunar

Því er svo við þetta að bæta að Eggert skaut á Facebook í gærkvöldi klausu þar sem hann hrósar sigri í þessari rimmu, hann telur að RÚV-arar megi skammast sín og þeim bæri að biðjast afsökunar.

„Sunna og reiðu og Rúvararnir heimtuðu í gær að ég myndi biðjast afsökunar. Fjöldi manns tók undir þetta og það átti að hræða mig til hlýðni. Í dag liggur sannleikurinn fyrir. Rúvarar halda áfram að ausa úr skálum reiði sinnar. Er ekki kominn tími á afsökunarbeiðni frá Sunnu? Það er svo frelsandi sögðu menn við mig í gær. Ég er ekki að tala um mig. Ætti hún ekki að biðja lögreglustjóra afsökunar? Ég set hér punkt við þetta mál hvað mig varðar. Rúvarar sem létu hvað hæst í gær ættu að ryfja upp siða- og fréttareglur Rúv.“

En, það er ekki Eggerts að setja punktinn. Rakel telur hann á villigötum. Í samtali við Vísi segist Rakel að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort Eggert verði kærður til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Það er í skoðun.

...

Uppfært 18:00


Rakel Þorbergsdóttir vill koma því á framfæri að hún telur fyrirsögnina ekki alveg nógu nákvæma; hún er að vísa til þeirra ályktana sem Eggert dragi en ekki að lagt sé efnislegt mat á ummæli lögreglustjóra, sem er utan efnis athugasemdarinnar.



Athugasemd fréttastjóra Ríkisútvarpsins

„Reykjavík 4.febrúar 2016

Athugasemd vegna ummæla ritstjóra DV um fréttastofu RÚV

Vegna ummæla Eggerts Skúlasonar ritstjóra DV í leiðara blaðsins 2.febrúar um meint vinnubrögð á fréttastofu Ríkisútvarpsins þar sem gefið er í skyn að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi verið blekktur í viðtal vill fréttastofan árétta nokkrar staðreyndir í málinu.

Ásakanir ritstjórans snúast um viðtal við lögreglustjórann í Reykjavík sem spilað var í hádegisfréttum laugardaginn 22. nóvember 2014 en viðtalið var tekið upp í hljóðstofu Ríkisútvarpsins í gegnum síma.

Öll hljóðrituð viðtöl sem fréttastofa RÚV tekur þurfa að fara fram í gegnum hljóðstofu (stúdíó með tæknimanni) því ekki er til búnaður á fréttastofunni sem gerir fréttamönnum kleift að hljóðrita símtöl í borðsíma og fréttareglur RÚV heimila ekki notkun á hljóðupptöku úr farsíma sem viðmælanda er ekki kunnugt um. Þá hefur það aldrei tíðkast, jafnvel þó að viðmælanda væri kunnugt um upptöku á farsíma og samþykki lægi fyrir. Ljósvakamiðill viðhefur önnur vinnubrögð en t.d. dagblöð hvað þetta varðar því upptakan þarf að vera úsendingarhæf í útvarpi eða sjónvarpi og því er hljóðver alltaf notað.

Í þessu umrædda viðtali hafði fréttamaðurinn rætt við lögreglustjórann í farsíma sinn stuttu áður og þegar samþykki fyrir viðtali lá fyrir fór fréttamaðurinn í hljóðstofu og þaðan var hringt í lögreglustjórann, venju samkvæmt. Upptakan er til í gögnum fréttastofunnar í heild sinni, rúmar 23 mínútur. Á upptökunni segir fréttamaðurinn í lok viðtals að nú ætli hann að hlusta á viðtalið og vera í sambandi enda hafði lögreglustjórinn sett það sem skilyrði fyrir veitingu viðtals að hún fengi að vita hvaða hlutar þess yrðu notaðir í fréttina. Áður en fréttin var birt hringdi fréttamaðurinn í lögreglustjórann og las upp handritið.

Sú ályktun ritstjóra DV um að lögreglustjórinn hafi ekki vitað að hún væri í viðtali eða að hljóðupptaka væri í gangi er því röng. Það staðfestir upptakan sjálf. Þá hefur fréttastofu aldrei borist kvörtun eða athugasemd frá lögreglustjóranum sjálfum, hvorki fyrir 14 mánuðum þegar viðtalið var birt né núna eftir að ritstjóri DV steig fram á ritvöllinn með sína túlkun á samskiptum fréttastofunnar og lögreglustjórans. Fréttastofa hefur boðið lögreglustjóranum að koma og hlusta á upptökuna og það boð stendur.

Með vísan í ofangreinda málavexti er fráleitt að halda því fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi á nokkurn hátt beitt blekkingum eða viðhaft óeðlileg vinnubrögð. Slíkar ásakanir standast einfaldlega ekki skoðun.

Rakel Þorbergsdóttir

Fréttastjóri Ríkisútvarpsins“


Sunna og reiðu og Rúvararnir heimtuðu í gær að ég myndi biðjast afsökunar. Fjöldi manns tók undir þetta og það átti að...

Posted by Eggert Skúlason on 3. febrúar 2016

Að morgni 22. nóvember 2014 tók ég viðtal við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, fyrir há...

Posted by Sunna Valgerðardóttir on 3. febrúar 2016

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×