Innlent

Ragnheiður Elín segir Dag önugan og ómálefnalegan popúlista

Jakob Bjarnar skrifar
Ragnheiður Elín: Beinlínis hallærislegt af borgarstjóra í pólitískum popúlisma að reyna að stilla okkur upp sem andstæðingum í þessu samhengi.
Ragnheiður Elín: Beinlínis hallærislegt af borgarstjóra í pólitískum popúlisma að reyna að stilla okkur upp sem andstæðingum í þessu samhengi. visir/anton
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, vill ekki láta Dag B. Eggertsdóttir eiga neitt inni hjá sér; segir hann önugan og ómálefnalegan. En, henni „skilst að [Dagur] hafi verið að hnýta í mig á facebook síðu sinni fyrr í morgun.“

Vísir greindi frá reiðilestri Dags nú fyrir stundu, sem segir að sveitarstjórnarfólk sé komið með algerlega kappnóg af dáðlausum og aðgerðarlausum ráðherra; þá sé litið til ferðamála og hvernig beri að fjármagna bráðnauðsynlega uppbyggingu innviða þar. Og nú ganga skeytin á milli ráðamannanna.

„Það hefur áður komið fram að ég og borgarstjóri erum ekki sammála um að gistináttagjaldið sé sá gjaldstofn sem færa eigi yfir til sveitarfélaganna til þess að tryggja þeim meiri hlutdeild í tekjum af ferðamönnum sem hingað til landsins koma,“ skrifar Ragnheiður Elín á sína Facebooksíðu.

Hún segir að þetta myndi skila sér með ójöfnum hætti til sveitarfélaganna vítt og breitt um landið og hvergi í samhengi við þann kostnað sem sveitarfélögin ... „- sérstaklega þau fámennustu úti á landi - hafa af þjónustu og innviðauppbyggingu vegna ferðaþjónustunnar. Í öðru lagi gefur gistináttagjaldið ekkert sérstaklega vel af sér, ef svo mætti til orða komast, sérstaklega þegar haft er í huga hversu mikið ómak er af innheimtu þess, fjölda innheimtuaðila, margar undanþágur og litlar heimtur. Þetta ræddi ég allt í viðtalinu sem Dagur vísar til.“

Pistill Ragnheiðar Elínar er alllangur en hún lýkur honum á að segja að það sé „beinlínis hallærislegt af borgarstjóra í pólitískum popúlisma að reyna að stilla okkur upp sem andstæðingum í þessu samhengi. Það er þvert á það sem við erum alls staðar annars staðar að gera í þessum málaflokki - við erum að vinna þvert á stjórnsýsluna, með sveitarfélögunum og greininni sjálfri að því að stilla saman strengi, vinna saman og þannig ná betri árangri. Af hverju kemur borgarstjóri ekki bara frekar með okkur í það verkefni?“

Ragnheiður Elín vill að endingu hvetja Dag til að hlusta á viðtalið sem hann vísar til - ef hann hefði gert það hefði ég losnað við að skrifa þennan langa status.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×