Fótbolti

Ragnar talar bestu sænskuna í landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar ræðir við sænska blaðamenn á æfingu íslenska liðsins í gær.
Ragnar ræðir við sænska blaðamenn á æfingu íslenska liðsins í gær. Vísir/Vilhelm
Að venju var spurt um hin ýmsu mál á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag en meðal þess sem bar á góma var spurningin hver talaði bestu sænskuna í íslenska landsliðinu.

„Ég held að það sé Ragnar,“ sagði Lars Lagerbäck og þeir Jón Daði Böðvarsson og Birkir Már Sævarsson tóku undir það.

Ragnar spilaði lengi með IFK Gautaborg og talar því mállýskuna sem er töluð þar.

„Já, hann hefur smá vott af því. En við köllum það ekki sænsku,“ sagði Lagerbäck og uppskar hlátur, sérstaklega hjá sænsku blaðamönnunum sem sátu fundinn.

Sjá einnig: Svona var blaðamannafundur strákanna í Annecy

Lagerbäck var spurður hvort hann saknaði þess að geta gripið í óformlegt spjall hinna enda er hann sá eini í hópnum sem ekki talar íslensku. Hann sagði að það væri ekki stórt atriði, þó það væri vissulega ókostur.

„Maður getur misst af ýmislegu sem ekki kemur endilega fram á fundum eða öðru. En hef verið svo lengi með þessum strákum að ég þekki þá nokkuð vel sem manneskjur,“ sagði Lagerbäck.

„Heimir og allir aðrir í starfsliðinu eru svo vakandi fyrir því ef eitthvað kemur upp og þeir geta brugðist við því. Sjúkraþjálfararnir líka, þeir eru félagsráðgjafarnir í hópnum.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×