Fótbolti

Ragnar: Ekkert til í sögunum um Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Vísir/Vilhelm
Ragnar Sigurðsson segir að síðustu dagar hafi verið viðburðarríkir en hann ræddi við fjölmiðla fyrir æfingu íslenska liðsins í Annecy í morgun.

Eftir frábæra frammistöðu hans gegn Englandi í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi segir hann að hann hafi orðið var við áhuga liða á sér en Ragnar leikur sem stendur með Krasnodar í Rússlandi.

„Ég talaði við umboðsmanninn í gær og hann sagði að það væri ekkert fast í hendi. Ég ætti bara að einbeita mér að því að standa mig í næsta leik,“ sagði Ragnar í morgun. „Ég vil að sjálfsögðu spila í stærri deild.“

Ragnar segir að það hafi verið draumur hjá honum að spila með Liverpool en hann reiknar ekki með því að það verði að veruleika.

„Ég held að það sé ekkert til í þeim sögusögnum,“ sagði hann og bætir við að allar þessar sögusagnir og sú mikla athygli sem hann hefur fengið hafi ekki truflandi áhrif á hann.

„Það er bara gott og þetta virkar á mann eins og aukahvatning fyrir mig. Það er gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem maður er að gera. Þá vill maður leggja ennþá meira á sig.“

Hann játar því að líklega hafi hann aldrei spilað betur á ferlinum en í leikjum Íslands á EM.

„Getur maður ekki sagt það? Þetta er svo stórt svið og það spilar líka inn í hvað manni finnst um eigin frammistöðu. En ætli maður getur bara ekki sagt það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×