Fótbolti

Ragnar: Algjört kjaftæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. vísir/getty
„Ég er mjög pirraður núna,“ sagði Ragnar Sigurðsson, miðvörður Íslands, við Vísi beint eftir tapið gegn Tyrklandi í kvöld. Tyrkir tryggðu sér sigurinn með marki úr aukaspyrnu á 89. mínútu.

„Þetta var aldrei aukaspyrna á Kára - tómt rugl. Þess vegna er þetta mjög pirrandi,“ sagði Ragnar sem viðurkenndi að þetta var erfiður leikur.

„Þetta var erfiður leikur þar sem hvorugt liðið var að skapa sér færi. Jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit. Tyrkirnir eru samt góðir að halda boltanum og þeir ógnuðu alltaf með einum eða tveimur hlaupum. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur í vörninni en mér fannst við halda þeim frá hættulegum færum,“ sagði Ragnar.

Hann átti erfitt með að sætta sig við aukaspyrnuna sem sigurmarkið var skorað úr. „Ég vil bara segja aftur að þetta var aldrei aukaspyrna. Þetta var algjört kjaftæði,“ sagði Ragnar sem var annars sáttur með leikinn í heildina.

„Við erum frábærir í að halda skipulagi og spila þéttan varnarleik. Við erum samt ekki að skapa eins mikið og við höfum gert en kannski er það vegna þess að við erum komnir á EM,“ sagði Ragnar Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×