Innlent

Raforkunotkun eykst um fimmtung á aðfangadag

Höskuldur Kári Schram skrifar
Raforkunotkun höfuðborgarbúa eykst að jafnaði um allt að tuttugu og fimm prósent á aðfangadag og nær hámarki þegar jólasteikin er komin inn í ofninn. Mikið vatn hefur hins vegar runnið til sjávar síðan skammta þurfti orku til að draga úr álagi í aðdraganda jóla.

Ýmislegt má lesa út úr mælum orkuveitu Reykjavíkur sem gefur vísbendingar um daglega hegðun borgarbúa. Meðal annars sýna dælur hitaveitunnar að fólk vaknar að jafnaði klukkutíma seinna á sunnudögum en á laugardögum.

Á aðfangadag eykst svo orkunotkun gríðarlega enda eldavélar og önnur heimilistæki á fullu í aðdraganda jóla.

„Ef við tökum svona frá því um kaffi þegar fólk fer að skerpa á eldavélunum og fram til sex þegar allar eldavélar eru á lokasprettinum með jólasteikina þá eru þetta svona 30-35 megavött,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur

Það er um 25% aukning miðað við venjulega rafmagnsnotkun, en notkunin bara á aðfangadag er um helmingur af allri sumarnotkun.

Neðri lína á þessu línuriti sýnir orkunotkun á mánudegi eftir verslunarmannahelgi þegar hún er hvað minnst en efri línan noktun á aðfangadag. Eins og sést byrjar notkun að aukast upp úr hádegi og nær svo hámarki milli klukkan fjögur og sex þegar eldamennskan er komin á fullt. Um kvöldið dregur svo hratt úr notkun.

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur mun eflaust eftir því þegar rafmagn var skammtað á aðfangadag vegna álags. Þá voru rafmangstruflanir einnig algengar.

„Hérna í gamla daga, svona fram yfir 1970, þá var bara rafmagnsskortur. Það var bara ekki framleitt nóg rafmagn fyrir höfuðborgarsvæðið. Síðast var það líklega snemma á 9. áratugnum. Þá kom upp stór bilun og þá þurfti að skammta rafmagn þess vegna. Bilanir geta alltaf gerst en rafmagnsskortur er liðin tíð, held ég,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×