Innlent

Raforkulög stuða þingheim

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Á meðal þess sem frumvarpið tekur á er sá kostnaðarmunur sem má verða á milli rafstrengja í jörðu og loftlína til að fyrirtæki þurfi að skoða möguleikann á jarðstrengjum.
Á meðal þess sem frumvarpið tekur á er sá kostnaðarmunur sem má verða á milli rafstrengja í jörðu og loftlína til að fyrirtæki þurfi að skoða möguleikann á jarðstrengjum. fréttablaðið/anton
Frumvarp til raforkulaga olli uppnámi á Alþingi í gær og kalla þurfti út þingmenn til að nægilega margir yrðu við atkvæðagreiðslu um hvort halda ætti kvöldfund. Þegar tekist hafði að samþykkja kvöldfund í þriðju tilraun tóku þingmenn til við að ræða um störf þingsins og síðan málið sjálft og stóð sú umræða enn þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Deiluefnið er stjórnarfrumvarp um raforkulög. Atvinnuveganefnd vísaði málinu til umsagnar umhverfisnefndar, en því var skilað úr atvinnuveganefndinni áður en umhverfis- og samgöngunefndin var búin að skila sinni umsögn. Það hleypti illu blóði í nefndarmenn umhverfisnefndar, sem og stjórnarandstöðuna.

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður umhverfisnefndarinnar, segir málið alvarlegt. Atvinnuveganefndin hafi lítið gert með umsagnir um það og hundsi álit umhverfisnefndar.

„Í þessu tilfelli gerist það að atvinnuveganefnd biður umhverfisnefnd að senda sér umsögn. Við vinnum það, að mínum dómi mjög vel, og skilum inn ýtarlegri umsögn sem er mjög gagnrýnin um málið. Það kemur ofan á mjög krítískar umsagnir til dæmis frá Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðrum aðilum sem þurfa raunverulega að fara að vinna með þessa löggjöf. Það er verið að gagnrýna að það sé ekki nægilegur skýrleiki með kæruleiðir og fleiri slíka þætti.

Meirihluti atvinnuveganefndar gerir enga tilraun til að svara þessari gagnrýni, heldur kemur með sína niðurstöðu í mjög þunnu nefndaráliti. Svona geta nefndir ekki unnið með svona tæknilega flókin mál. Það þarf að koma fram hvers vegna menn tóku þá afstöðu að hundsa þessi álit, hvort sem þau voru frá öðrum nefndum í þinginu eða stofnunum innan stjórnsýslunnar.

Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, gefur lítið fyrir þessa gagnrýni og segir álit meirihluta atvinnuveganefndar vel unnið.

„Þó við tökum ekki fyrir ágreiningsmálin og athugasemdirnar í nefndaráliti, frá hverjum og einum umsagnaraðila, og rekjum þau. Það er ekki algengt að það sé gert í nefndaráliti, allra síst þar sem er svona mikil sátt um málið.“

Jón telur einnig að kæruleiðir séu alls ekki óljósar í frumvarpinu.

„Við teljum að það séu ekki óljósar kæruleiðir í þessu, alls ekki. Eins og málin standa í dag geta einstaklingar eða sveitarfélög eða hverjir sem eiga í hlut, kært kerfisáætlun til úrskurðarnefndar raforkumála.“

Katrín segir að málið muni taka töluverðan tíma í þinginu, enda sé það mikilvægt.

„Já, þetta verður stórmál. Þetta lætur ekki mikið yfir sér, en skiptir gríðarlega miklu máli.“

Ljóst er að lítil sátt er í sjónmáli í málinu. Það hleypti illu blóði í stjórnarandstæðinga þegar Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hleypti Jóni Gunnarssyni fram fyrir á mælendaskrá eftir hádegishlé í gær. Upp úr því spratt sú atburðarás sem áður var lýst.

Stjórnarandstæðingar vilja að málið sé sett aftur inn til atvinnuveganefndar, en stjórnarliðar taka það ekki í mál.

Það ræðst á næstu dögum hvernig tekst að leysa málið eða hvort það muni taka upp langan tíma af störfum þingsins.

Lítil áhersla sögð á umhverfismálin

Á meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er að ekki sé gætt nægilega að umhverfismálum í frumvarpinu. Samband íslenskra sveitarfélaga vitnar í sinni umsögn í skipulagsnefnd sambandsins, en þar er beinlínis lagt til að Alþingi vinni frumvarpið betur.

„Gagnrýnivert er að lítið sem ekkert er vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu. Með tilliti til þeirra miklu annmarka sem eru á málinu telur nefndin koma til álita að Alþingi kalli eftir því að frumvarpið verði unnið betur og síðan lagt fram að nýju. Ef ekki þykir tilefni til þess verði í öllu falli vandað mjög til umfjöllunar um málið á Alþingi og því gefinn sá tími sem þarf til að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um málið.“

Höskuldur Þórhallsson
Athugasemdir umhverfisnefndar

Umhverfisnefnd beindi fyrst og fremst sjónum sínum að kerfisáætlun flutningsfyrirtækis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gera þurfi, og samráði við sveitarfélög. Þarna séu á ferð mörg stór álitamál sem snúi að sjálfstjórnarrétti og skipulagsskyldu sveitarfélaganna sem umsagnaraðilar hafi gert miklar athugasemdir við.

Í umsögn meirihluta umhverfisnefndar, undir forystu Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, er kveðið býsna fast að orði. Meirihlutann skipa þingmenn stjórnarflokkanna.

„Af þessu má ráða að flutningsfyrirtækið er sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum, t.d. jarðeigendum, og mun geta knúið sveitarfélög til að breyta sínum skipulagsáætlunum til samræmis við samþykkta kerfisáætlun innan tiltölulega skamms tíma.

Ekki er gert ráð fyrir málsmeðferð sem leiði til sátta þegar ágreiningur er milli aðila og má í því sambandi benda á að ekki er um jafn fortakslausa skyldu að ræða fyrir sveitarfélög að samræma skipulagsáætlanir sínar samgönguáætlun, sem þó er samþykkt sem ályktun Alþingis, en kerfisáætlun er hins vegar ákveðin og afgreidd af stjórnsýslustofnun án beinnar aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Þá er ekki heldur á neinn hátt horft til þess að flutningsfyrirtækið þurfi að taka tillit til byggðaþróunar sveitarfélaga eins og hún kemur fram í aðalskipulagi þeirra en nauðsynlegt er að raflínur standi ekki í vegi fyrir því að sveitarfélög geti þróast á eðlilegan hátt.“

Orkustofnun ohf.?

Málið byggist á Evróputilskipun varðandi kerfisáætlun og er frumvarpi til raforkulaga ætlað að bregðast við henni. Jón Gunnarsson segir að á síðari stigum þurfi að skoða hvernig verði tryggt að leyfisveitandinn, sem í dag er Orkustofnun, verði óháð félag, en þess verði krafist. Gagnrýni á skort á lýðræðislega aðkomu lúti að því.

„Það sem er gagnrýnt, það er að Orkustofnun er ekki sjálfstætt apparat, er ekki ohf.-félag. Það er eitthvað sem mun þurfa að skoða, alveg örugglega, þegar við innleiðum tilskipunina að fullu. Þá er ekki ólíklegt að við þurfum að skoða það atriði, að leyfisveitandinn verði óháð félag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×