Innlent

Rafmagnsleysið í Vesturbænum olli flóði í Háskóla Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nemendur í Gimli munu hafa fundið fyrir því að loftgæði í byggingunni eru ekki jafngóð og alla jafna. Ástæðan er sú að loftræstikerfið liggur niðri en það er staðsett í tæknirýminu þar sem flæddi.
Nemendur í Gimli munu hafa fundið fyrir því að loftgæði í byggingunni eru ekki jafngóð og alla jafna. Ástæðan er sú að loftræstikerfið liggur niðri en það er staðsett í tæknirýminu þar sem flæddi. Vísir/Anton Brink
Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir út í Gimli, eina af byggingum Háskóla Íslands, í morgun vegna umfangsmikils vatnsleka í kjallara byggingarinnar. Bjarni Grétar Bjarnason, umsjónarmaður fasteigna hjá HÍ, segir að vatnslekann megi að öllum líkindum rekja til rafmagnsleysis sem varð í Vesturbæ Reykjavíkur á föstudaginn.

Bjarni segir í samtali við Vísi að flest bendi til þess að grunnvatnsdælurnar hafi slegið út í kjölfar rafmagnsleysisins. Ekki hafi kviknað á þeim aftur og líklega verið leki alla helgina. Í morgun hafi vatnshæðin í tæknirými í kjallar Gimli verið rétt rúmur hálfur metri dreift yfir líklega um eitt hundrað fermetra flöt.

Sjá einnig:Háspennustrengur bilaði - Vesturbærinn tengdur varaleið

Slökkviliðsmenn mættu með dælubíl og dælur og voru tvær dælur í gangi í um tvær klukkustundir. Að sögn Bjarna dæla dælurnar um 350 lítrum á mínútu. Enn sé unnið að því að þurrka rýmið en því verki sé að ljúka.

Ekki er hægt að leggja mat á fjárhagslegt tjón að svo stöddu en loftræstikerfið í Gimli, sem er í tæknirýminu, liggur einnig úti. Munu nemendur í lestrarsölum byggingarinnar hafa fundið fyrir því í dag að loftið er þyngra en alla jafna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×