Innlent

Rafmagnslaust í klukkutíma í álveri Alcoa á Reyðarfirði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rafmagnslaust varð í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði í um klukkustund í morgun en straumlaust varð meira og minna á öllu Austurlandi og truflanir urðu á Norðurlandi í kjölfarið vegna truflunar í flutningskerfi Landsnets.

Rafmagn er nú komið aftur á í álverinu en Ragnar Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð vegna rafmagnsleysisins. Hún gangi út á að tryggja öryggi starfsfólks, koma þeim úr krönum og annað slíkt, og það hafi allt gengið vel, enginn hafi slasast eða verið í hættu.

Ragnar segir að það sé aldrei gott þegar rafmagn fari af í álveri en þar sem klukkustund sé „innan marka“, eins og hann orðar það, eru ekki líkur til að tjónið sé mikið.

Kerskáli álversins stöðvaðist og er nú unnið að því að koma honum í gang aftur en óljóst er hvenær starfsemi í honum verður orðin stöðug.

Samkvæmt Steinunni Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, var fyrirvaralaus truflun í raforkukerfinu í dag um klukkan 09:20.

„Truflunin tengdist skipulagðri aðgerð í tengivirki Landsnets í Fljótsdal og tengivirki Fjarðaáls.  Bilun kom upp við aðgerðina og sló út allt álag Fjarðaáls.  Í kjölfarið fóru allar vélar í Fljótsdalsstöð af neti og rafmagnslaust varð víðast hvar á Austurlandi í kjölfarið,“ segir Steinunn.

Áhrif af trufluninni urðu víðtæk um Norður-og Austurland vegna umfangs truflunarinnar.  

„Varnir þær sem raforkukerfið hefur, skiptu landinu upp í tvo aðskilda hluta. Töluverður óstöðugleiki var áfram kerfinu norðaustanmegin, þar sem afl vantaði inn á raforkukerfið. Umtalsvert straumleysi varð því á Austurlandi. Samtenging á byggðalínurnar tókst rétt fyrir kl. 10. RARIK er nú að vinna í innsetningu á rafmagni til notenda á Austurlandi. Vélar í Fljótsdalvirkjun eru að koma inn hver af annarri og uppkeyrsla Fjarðaáls hafin,“ segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×