Viðskipti innlent

Rafhlöðugalli í iPhone gert vart við sig á Íslandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Lítið upplag af iPhone 6S símum var selt með gölluðum rafhlöðum.
Lítið upplag af iPhone 6S símum var selt með gölluðum rafhlöðum. Mynd/Apple
Apple tilkynnti í lok nóvember að lítið upplag af iPhone 6S símunum hafi verið selt með gölluðum rafhlöðum. Um er að ræða ákveðin raðnúmer sem hægt er að fletta upp en símarnir geta slökkt óvænt á sér þrátt fyrir að hafa næga hleðslu. Galli í rafhlöðunum hefur gert vart við sig á Íslandi, sér í lagi þegar farið er með símana út í kulda.

Erla Björk Sigurgeirsdóttir, þjónustustjóri Eplis, umboðsaðila Apple á Íslandi, segist ekki hafa tölu á því hve margir símar sem Epli seldi séu með gallaða rafhlöðu. „Við erum búin að fá fyrirspurnir en höfum ekki fengið nein tæki inn,“ segir Erla.

Epli hefur tilkynnt að vegna heimsálags fái verslunin ekki rafhlöður á lager fyrr en um miðjan desember til þess að geta skipt út gölluðu rafhlöðunum. „Apple gefur út prógramm til að fólk geti skipt þessu út. Prógrammið byrjar um miðjan desember en við búumst við því jafnvel fyrr.“

Sigurður Helgason, eigandi iStore, segir að tilfelli hafi komið upp þar sem rafhlöður hafi slökkt svona á sér. „Við vitum ekki alveg hvort þetta eru þessar gölluðu rafhlöður, við erum ekki enn þá búin að fá leiðbeiningar um hvernig eigi að fletta upp raðnúmerunum sem þetta varðar. En viðskiptavinir okkar hafa fengið að skipta út símum vegna þess að batteríið hefur verið að slökkva á sér í tíma og ótíma, sérstaklega úti í kulda,“ segir Sigurður. Hann segir að oftast taki eina viku að afgreiða nýtt batterí. Það geti þó tekið hátt í tvær vikur en viðskiptavinir hafi fengið lánaða iPhone-síma á meðan.

Vart hefur orðið við gallaðar rafhlöður hjá mismunandi söluaðilum hér á landi. Eigendur síma með gallaða rafhlöðu sem Fréttablaðið ræddi við sögðust ósáttir við hve langur tími hefði liðið frá uppgötvun vandamálsins og þangað til símarnir verða lagaðir. Þetta ætti sérstaklega við þar sem símarnir voru framleiddir í september og október á síðasta ári og vandamálið því verið viðvarandi í heilt ár.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×