Innlent

Rændi mann í strætóskýli: „Þú veist hvernig þetta er“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur staðfesti  gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness.
Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness. vísir/gva
Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en honum er gefið að sök að hafa rænt mann í strætóskýli, grímuklæddur og vopnaður kúbeini. Þá mun hann einnig sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Er honum gefið að sök að hafa rænt mann sem sat í strætóskýli í Kópavogi. Kom hann aðvífandi og heimtaði af honum öll verðmæti með orðunum „þú veist hvernig þetta er“. Hótaði maðurinn því að lemja þann sem hann rændi með kúbeini og sagðist hann hafa rænt annan aðila fyrr þann dag en sá ekki hlýtt og verið laminn í andlitið með kúbeininu.

Sá sem sat í strætóskýlinu lét manninn fá úlpu, veski og Iphone 5c síma. Hljóp maðurinn þá á brott í átt að verslun í Kópavogi. Nokkrum dögum síðar fékk lögreglan tilkynningu um árás tveggja manna í söluturni í Reykjavík. Var sá sem rændi manninn í strætóskýlinu annar þeirra, var hann handtekinn og færður á lögreglustöð.

Einnig eru til rannsóknar hjá lögreglu önnur mál á hendur manninum, tvö ránsmál þar sem kærði sé annars vegar grunaður um aðild að ráni við í Kópavogi, með því að hafa í félagi við annan mann, veist að manni með barsmíðum og rænt hann síma, heyrnatólum og strætisvagnamiðum. Hins vegar með því að hafa í Kópavogi, í félagi við annan mann, hótað manni með eggvopni og rænt hann saxófóni og iPad.

Staðfesti Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness. Mun maðurinn sæta gæsluvarðhaldi og einangrun til föstudagsins 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×