Innlent

Ræktaði kannabis handa sjúkum Norðlendingum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Dalvík en yfirmaður heilsugæslunnar þar  greindi frá fyrirætlunum mannsins.
Frá Dalvík en yfirmaður heilsugæslunnar þar greindi frá fyrirætlunum mannsins. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á Norðurlandi eystra var í lok janúar dæmdur í fangelsi í sex mánuði og gert að greiða 225.000 krónur í sekt fyrir margvísleg fíkniefna- og umferðarlagabrot, svo sem kannabisræktun á sveitabæ á Norðurlandi. Löreglan gerði í tvígang húsleit á heimili hans og fundust í bæði skiptin ætluð fíkniefni, kannabisolía og 58 plöntur.

Fyrir dómi sagði maðurinn að ræktunin væri tilraunaverkefni sem væri í fullu samráði við landeiganda, í því skyni að framleiða efni til lækninga. Maðurinn hefur þó enga menntun á sviði lækninga.

„Með því að ákærði hugðist að sögn afhenda af­urðirnar veiku fólki, verður miðað við að ræktunin hafi verið í dreifingarskyni. Ákærði hefur ekki framvísað leyfi til ræktunarinnar og er raunar vandséð að hann gæti fengið slíkt leyfi," segir í dómnum og bætt er við að maðurinn hafi haft sér það til málsbóta að hann teldi kannabis ekki vera ólöglegt efni á „íslensku yfirráðasvæði" eins og það er orðað. „Eins og áður greinir frá er það fjarstæða."

Ráðlagði fólki að skipta út lyfjum fyrir kannabis

Maðurinn sagði hann hefði sjö skjólstæðinga, flogaveik börn, á sínum snærum sem fengu hjá honum kannabis í lækningaskyni. Þetta er að einhverju leyti staðfest í bréfi yfirlæknis heilsugæslunnar á Dalvík sem lá fyrir í málinu. Þar segist læknirinn hafa upplýsingar beint frá einum skjólstæðingi og aðstandanda annars um að maðurinn „ráðleggi fólki eindregið að hætta hefðbundnum og gagnreyndum lyfjameðferðum og nota í staðinn kannabis og kannabisolíu ásamt öðrum efnum sem læknirinn kunni ekki deili á.“ 

„Ræðir læknirinn um ungan alvarlega geðfatlaðan mann í þessu sambandi og annan mann á besta aldri með hrörnunarsjúkdóm. Segir læknirinn að starfsfólk heilbrigðisstofnana geti ekki sætt sig við þetta og að auki séu fórnarlömb slíkra manna gjarnan fólk sem eigi undir högg að sækja vegna skorts á innsæi í eigið ástand eða þroskahömlunar af einhverjum toga,“ segir í dómnum.

Manninum var sem fyrr segir gert að sæta fangelsi í sex mánuði og greiða 225.000 krónur í sekt. Fyrri sakaferill mannsins hafði ekki áhrif á refsiákvörðun.


Tengdar fréttir

Segir kannabisrækt verið eytt með ólögum

Jóhannes Bjarmason ræktaði kannabisplöntur til að framleiða úr þeim olíu fyrir krabbameinsjúklinga. Hann sakar lögregluna um skemmdarverk. Lögregla segir starfsemi Jóhannesar einfaldlega ólöglega og því hafi hún verið stöðvuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×