Innlent

Ræddu Ó­færð og Skam í norsku konungs­höllinni: Guðni sagði ís­lensk ung­menni sletta á norsku vegna Skam

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá þá Guðna Th. og Harald Noregskonung ásamt Elizu Reid, Sonju Noregsdrottningu og Hákoni Noregsprins.
Hér má sjá þá Guðna Th. og Harald Noregskonung ásamt Elizu Reid, Sonju Noregsdrottningu og Hákoni Noregsprins. Vísir/EPA

Haraldur fimmti Noregskonungur og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddu þættina Ófærð og Skam í ávörpum sínum í konungshöllinni í Osló í kvöld.



Guðni og eiginkona hans Eliza Reid hófu í dag tveggja daga opinbera heimsókn til Noregs en þetta er önnur opinber heimsókn forsetahjónanna til útlanda. Síðast heimsóttu þau dönsku konungshjónin í lok janúar.

Haraldur talaði um hvað norræn samvinna stæði styrkum fótum og nefndi í því sambandi hvernig kvennalandslið Norðmanna í handbolta hefði náð miklum árangri undir styrkri stjórn íslenska þjálfarans Þóris Hergeirssonar.

Hann sagði einnig að íslenska sjónvarpsþáttaröðin Ófærð og norska þáttaröðin Skam hefðu styrkt menningartengsl norrænu þjóðanna.

Guðni Th. kaus einnig að ræða Skam í sinni ræðu en hann sagði íslensk ungmenni hafa tekið norsku þáttaröðinni opnum örmum. Þá sagði hann íslensk ungmenni einnig vera byrjuð að sletta á norsku vegna Skam og að það væru orð sem ekki væri við hæfi að endurtaka í veislu sem þessari, og uppskar mikinn hlátur fyrir vikið í veislunni.

Hægt er að hlusta á ræðu Haralds og Guðna á vef norska ríkisútvarpsins hér.

Dagskrá forsetahjónanna íslensku er ansi þétt í Noregi. Á morgun eru ráðgerðar heimsóknir til Start - up Lab, miðstöðvar frumkvöðlafyrirtækja í Osló og NORLA, kynningarmiðstöðvar norskra bókmennta á erlendri grundu. Efnt verður til menningardagskrár í Þjóðarbókhlöðunni, forseti á fund með Ernu Solberg forsætisráðherra og situr hádegisverð norsku ríkisstjórnarinnar í boði forsætisráðherra.

Síðdegis á morgun heimsækja forsetahjón Ólafíustofu, safnaðarheimili íslenska safnaðarins í Osló, og bjóða til móttöku í Astrup Fearnley listasafninu til heiðurs norsku konungshjónunum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×