Innlent

Ræddu aukið samstarf Íslands og Chile á sviði sjávarútvegsmála

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Raúl Súnico aðstoðarsjávarútvegsráðherra Chile, áttu í dag tvíhliða fundi ásamt sendinefndum sínum, í Puerto Varas í Chile. Á fundinum var fjallað um sjávarútvegs- og fiskeldismál. 

Ísland og Chile eru með samstarfsyfirlýsingu frá árinu 2002 um samstarf á sviði sjávarútvegsmála og ræddu ráðherrarnir um að auka þetta samstarf, en viðfangsefni þjóðanna á sviði sjávarútvegs eru að mörgu leyti lík.

Í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að Chile sýndi reglum Íslands um togveiðar og svæðalokanir sérstakan áhuga og lýstu yfir áhuga á frekari upplýsingum um aðferðir Íslands við hafrannsóknir og gagnasöfnun. Sjávarútvegur er þriðja stærsta útflutningsgrein Chile og keppast stjórnvöld nú við að stýra veiðum að hámarksafrakstri (MSY).

Chile er mikilvægur markaður fyrir íslensk laxahrogn, en fyrir um ári síðan lokuðu þarlensk stjórnvöld fyrir innflutning á íslenskum laxahrognum á grundvelli sjúkdómsvarna. Ráðherrarnir fóru yfir þá ákvörðun og hvernig samvinna embættismanna í Chile og á Íslandi stuðlaði að því að málið leystist og hefur markaðurinn aftur opnast fyrir íslensk hrogn. „Rætt var að viðhalda þessum góðu samskiptum og vinna áfram að þeim úrlausnarefnum sem út af standa,“ segir í tilkynningunni.

Viðskipti og samstarf á milli Íslands og Chile er einna helst með laxahrogn og tæknibúnað fyrir fiskvinnslu frá Íslandi og landbúnaðarafurðir og skip frá Chile til Íslands. „Einnig er ljóst að tækifæri eru til staðar í samvinnu á sviði nýtingu jarðvarma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×