Innlent

Ræða Ásmundar Einars olli Sigmundi Davíð vonbrigðum

Atli Ísleifsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ásmundur Einar Daðason.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ásmundur Einar Daðason. Vísir/ernir/pjetur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ræða þingsflokksformannsins Ásmundar Einars Daðasonar á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr í dag hafi valdið sér vonbrigðum.

RÚV greinir frá þessu og segir að Sigmundur Davíð hafi látið orðin falla í ræðu sinni nú síðdegis þar sem hann kvaðst hafa fundist sem að hann hafi ekki átt ræðuna skilið.

Ásmundur Einar, sem var um tíma aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, vandaði í ræðu sinni formanninum ekki kveðjurnar og sakaði hann um hroka og einræðistilburði.

Lýsti Ásmundur þar upplifun sinni af fundi framkvæmdastjórnar flokksins þar sem Sigmundur Davíð á að hafa staðið upp þegar ræða átti dagskrá flokksþingsins og labbað út. Dagskrá fundarins var mikið gagnrýnd þar sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir ræðutíma fyrir forsætisráðherra.

Sigmundur tók svo til máls nú síðdegis þar sem hann flutti síðustu ræðu dagsins, áður en við tækju nefndarstörf og kvöldverður. RÚV segir að Sigmundur Davíð hafi sagt lýsingar Ásmundar Einars vera ósannar. Sagðist hann einnig hafa lagt á sig mikla vinnu við að fá Ásmund Einar, sem áður var þingmaður Vinstri grænna, yfir í Framsóknarflokkinn og falið honum trúnaðarstörf fyrir flokkinn. Því þætti honum leiðinlegt að hlusta á ræðu hans nú.

Í færslu sinni á Facebook ítrekar Ásmundur að allt það sem hann sagði í dag væri satt og að aðrir þeir sem sátu fundinn gætu staðfest það. Segir hann að Sigmundur Davíð þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann sé að yfirgefa flokkinn. „Ég er og verð Framsóknarmaður, ég er sannfærður um ágæti stefnu flokksins og kann vel við allt það góða fólk sem er í flokknum.“

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í morgun gekk mikið á á fundinum samkvæmt heimildarmönnum Fréttablaðsins og á endanum hafi formaður flokksins slitið fundi án niðurstöðu. Stuttu seinna hafi verið ný dagskrá sett á vef flokksins en í henni var gert ráð fyrir að allir ráðherrar haldi fimmtán mínútna ræðu á þinginu.


Tengdar fréttir

Sundraður Framsóknarflokkur býr sig undir átök á flokksþingi

Flokksþing Framsóknarflokksins hefst í dag í skugga mikilla innanflokksátaka. Formaðurinn er sakaður um einræðistilburði. Framkvæmdastjóri flokksins setti Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann Sigmundar, í starf tengiliðs flokksins við




Fleiri fréttir

Sjá meira


×