Innlent

Ráðuneyti fer yfir tillögur um fjárfestingar útlendinga

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir tíu mánuðum tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að endurskoða lög um fjárfestingar útlendinga.
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir tíu mánuðum tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að endurskoða lög um fjárfestingar útlendinga. Fréttablaðið/Stefán
Nefnd um endurskoðun á lögum um fjárfestingar og afnotarétt útlendinga á fjárfestingum á Íslandi hefur skilað tillögum til innanríkisráðuneytisins.

„Nefndin er búin að skila hugmyndum að breytingum sem er verið að fara yfir hér og því er ekki lokið,“ segir Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins.

Ríkisstjórnin samþykkti endurskoðun laganna í byrjun september í fyrra að tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.

„Markmið endurskoðunar yrði meðal annars að tryggja að skýr lög og reglur gildi á þessu sviði. Mikilvægt er að treysta lagalegan grunn erlendra fjárfestinga og tryggja að ákvarðanir tengdar þeim byggist á skýrum almennum reglum en ekki á undanþáguákvæðum eða ívilnunum,“ sagði um starf nefndarinnar á vef ráðuneytisins.

Tillögur nefndarinnar hafa ekki verið gerðar opinberar. „Menn vilja ekki láta tillögurnar uppi alveg í bili,“ segir Jóhannes sem kveður næsta feril málsins sér ekki alveg ljósan en að það skýrist væntanlega fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×