Viðskipti innlent

Ráðuneytið segir þá 30% tekjuhæstu standa undir tekjuskattskerfinu

ingvar haraldsson skrifar
Fjármálaráðuneytið hefur tekið saman gögn um tekjur ríkisins af tekjuskattskerfinu eftir tekjutíund.
Fjármálaráðuneytið hefur tekið saman gögn um tekjur ríkisins af tekjuskattskerfinu eftir tekjutíund. vísir/anton brink
„Í rauninni eru það aðeins tekjuhæstu 30 prósent framteljenda sem standa undir tekjum ríkissjóðs af tekjuskattskerfinu,“ segir í samantekt á tekjum ríkisins af tekjuskatta sem birt hefur verið á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þar kemur fram að nettótekjur ríkisins af 70 prósent tekjulægstu framteljendunum séu neikvæðar að teknu tilliti til útsvarsgreiðslna og vaxta- og barnabóta. Þó er bent á að aðrir skattar sem einstaklingar kunni að greiða, til að mynda virðisaukaskattur og fjármagnstekjuskattur, séu ekki hluti af umfjölluninni.

Uppsafnaðar tekjur ríkissjóðs eftir tekjutíundum.mynd/fjármálaráðuneyti
Jafnframt kemur fram að nettótekjur ríkissjóðs af tekjuskatti árið 2013 voru liðlega 95 milljarðar króna að teknu tilliti til þátttöku ríkissjóðs í útsvarsgreiðslum til sveitarfélaga, en þær námu 10,4 milljörðum króna og barna- og vaxtabóta , sem námu 17,5 milljörðum króna.

Meðaltekjur ríkissjóðs af tekjuskatti eftir tekjutíund.mynd/fjármálaráðuneyti
Að meðaltali eru 1,2 milljónir króna greiddar á framtalseiningu í tekjuskatt, þar af fara að meðaltali 733 þúsund krónur í útsvar.  Meðaltekjur ríkissjóðs eru þannig 471 þúsund krónur á framtalseiningu. Þá er einnig bent á að efsta tekjubilið sé eina tekjubilið sem greiði að meðaltali hærri fjárhæð í tekjuskatt til ríkissjóðs en útsvar til sveitarfélaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×