Innlent

Ráðstafa 180 milljónum til að auka öryggi ferðamanna

Atli Ísleifsson skrifar
Lagt er til að löggæsla vegna ferðamanna á helstu ferðamannasvæðum verði efld og gerð sýnilegri yfir sumarið.
Lagt er til að löggæsla vegna ferðamanna á helstu ferðamannasvæðum verði efld og gerð sýnilegri yfir sumarið. vísir/pjetur
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tillögu um ráðstöfun fjár í verkefni til að auka öryggi ferðamanna og annarra vegfarenda.

Samtals verður 178 milljónum varið á árinu til að efla löggæslu og þjónustu Vegagerðarinnar auk þess sem hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður styrkt.

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að ferðaþjónustan sé orðin ein meginstoð íslensks atvinnulífs og í kjölfar fjölgunar ferðamanna sé ljóst að aukið álag sé á ýmsa innviði samfélagsins sem bregðast þurfi við, einkum er varði vegakerfið og öryggisþætti.

„Helstu þættir þessa átaks eru:

Öryggi á vegum

Vegagerðin bætir merkingar við einbreiðar brýr og annast úrbætur við hættuleg gatnamót af eigin rekstrarfé en nýtir viðbótarframlag til að setja upp lokunarhlið eða efla merkingar þar sem þess er þörf á ýmsum fjall- og hálendisvegum; bæta veg austan Geysis; setja upp skilti við varasöm vöð og sinna auknu viðhaldi á hálendisvegum. Kostnaður vegna þessara þátta er um 80 milljónir króna. Þá skal tekið fram að Vegagerðin ver nú þegar 385 milljónum króna til verkefna í tengslum við umferðaröryggi og eru viðhalds- og þjónustuliðir nýttir í þessum tilgangi árið 2016.

Löggæsla

Lagt er til að löggæsla vegna ferðamanna á helstu ferðamannasvæðum verði efld og gerð sýnilegri yfir sumarið. Svæðin  eru Gullni hringurinn og uppsveitir Árnessýslu, hálendið sunnanlands, hálendið á Norðurlandi eystra og Suðausturland. Á hverju svæði yrði bætt við einni lögreglubifreið og samtals fjórum lögreglumönnum á vöktum. Heildarviðbótarkostnaður vegna þessa er metinn á 98 milljónir króna.

Hálendisvakt björgunarsveitanna

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur staðið að hálendisvakt með um tvö hundruð sjálfboðaliðum og er fyrirhugað er að hún verði á þremur stöðum í júlí og ágúst. Er nokkur þúsund ferðamönnum liðsinnt á hverju sumri og er verkefnið styrkt með fimm milljónum króna,“ segir í fréttinni.

Tillögur að verkefnum sem settar voru fram byggjast á vinnu starfshóps ráðuneytisins um öryggi ferðamanna sem Stjórnstöð ferðamála útfærði nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×